145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir mál sem snúa að jöfnun húshitunar- og raforkukostnaðar, sem hún kom inn á í ræðu sinni áðan, enda hefur það verið mikið baráttumál í gegnum tíðina að raforkukostnaður sé jafnaður á milli dreifbýlis og þéttbýlis annars vegar og hins vegar fyrir þá íbúa sem búa á köldum svæðum.

Það sem mig langaði að koma aðeins inn á hérna og spyrja ráðherrann út í varðar annað byggðamál og sértækara, það varðar afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum og mögulega atvinnuuppbyggingu á norðanverðum Vestfjörðum. Í skýrslu Landsnets frá 2009 eru þessu gerð góð skil. Þar segir að áreiðanleiki raforkuafhendingar í kerfi Landsnets sé lægstur á Vestfjörðum. Aðeins ein flutningsleið, vesturlína, liggi þangað en hún samanstandi af þremur línum. Línurnar liggi að hluta til um svæði þar sem veðurfar geti valdið truflunum og aðkoma sé erfið í slæmum veðrum er ráðast þurfi í viðgerðir. Þetta óöryggi í raforkumálum hefur víðtæk áhrif á samskeppnisstöðu atvinnulífs á svæðinu vegna þess að hún er talsvert lakari en í öðrum landshlutum.

Nú hafa menn verið að skoða möguleika á uppbyggingu virkjunar við Hvalá, þ.e. Hvalárvirkjunar, og áhugasamari aðilar eru komnir þar að og meiri alvara á bak við það en verið hefur í mörg ár. Menn hafa verið að skoða nálægar virkjanir líka, smærri virkjanir, og giska á að samanlagt geti þetta numið milli 75 og 85 megavöttum af uppsettu afli. Þetta samhliða mögulegri uppbyggingu á norðanverðum Vestfjörðum, nánar tiltekið á Súðavík, í uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju þar, kallar á að við sem þing, og þá bæði löggjafarvald og framkvæmdarvald, förum að skoða hvort ekki þarf að koma að af meiri krafti á norðanverðum Vestfjörðum. Það sem hefur meðal annars verið rætt um í því efni er möguleikinn á því að skilgreina nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi sem væri til þess fallinn að þessar virkjanir gætu tengst inn á þann tengipunkt og síðan að hringtengja raforku á Vestfjörðum og koma Vestfjörðum inn í almennar raforkutengingar, en eins og ég rakti hér áðan eru þær ekki nægilega góðar.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég veit að hún ber hag hinna dreifðu byggða mjög fyrir brjósti og við höfum séð það, m.a. í raforkumálum, hvort hún telji ekki að þetta sé mikilvægt verkefni og að við skoðum möguleikana á því á næstu árum að veita fjármagn til þess og setja það framar í forgangsröðina, sér í lagi í ljósi þeirrar neikvæðu íbúaþróunar sem hefur verið á svæðinu og í ljósi þeirrar atvinnuuppbyggingar sem er á pípunum á svæðinu og þar af leiðandi gjaldeyrissköpunar fyrir þjóðarbúið.