145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og ítreka mikilvægi þess að verkið verði sett í forgang og lögð verði á það þung áhersla í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Ég treysti því að hæstv. ráðherra geri það líkt og gert var varðandi jöfnun húshitunar- og raforkukostnaðar. Ég ítreka aftur hvað er í húfi. Í fyrsta skipti í mörg ár virðist þetta leggjast þannig að áhugasamir aðilar eru komnir að uppbyggingu á Hvalárvirkjun. Núna eru rannsóknir og fjármögnunarvinna o.fl. í gangi.

Menn hafa líka verið að skoða fleiri virkjanir þarna þannig að það gæti verið talsvert meira af orku á svæðinu en menn hafa áður talið. Þetta samhliða þeirri uppbyggingu sem menn hafa verið að skoða á sviði kalkþörungaverksmiðju á Súðavík er eitthvað sem við ættum að geta litið á sem eina heild. Það yrði auðvitað gríðarleg lyftistöng fyrir norðanverða Vestfirði svo að við gleymum ekki þeim fyrirtækjum sem á svæðinu eru og ná ekki að vaxa og dafna og þróast vegna þess að þau hafa ekki nægilega trygga raforku fyrir.

Ég er sannfærður um að í dag, gagnvart þessu svæði sem mikil fólksfækkun hefur verið á, eru fá verkefni sem gætu skilað sér jafn ríkulega í byggðauppbyggingu á svæðinu og það ef hringtenging raforku á Vestfjörðum og þessi tengipunktur og þessi virkjunarmál yrðu sett í fastan farveg. Ég treysti hæstv. ráðherra, líkt og hún sagði hér áðan, til þess að leggja á þetta þunga áherslu á komandi ári.