145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langaði að spyrja aðeins út í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég sé að verið er að setja fé í þann sjóð og ég hef einnig lesið í fréttum þar sem hæstv. ráðherra hefur verið að benda á að í rauninni hafi ekki endilega vantað fjármagn heldur hafi menn ekki verið búnir að skipuleggja nógu vel til þess að hægt væri að hefja framkvæmdir, eða það væri alla vega tilfellið einhvers staðar. Þá langaði mig að spyrja hvort það gæti ekki haft áhrif að þessi fjárlagaliður hefur rokkað ótrúlega. Ef ég man rétt voru settar 400 milljónir, eða hátt í það, árið 2013. Svo var það skorið nokkuð mikið niður bæði 2014 og 2015 og kom svo inn á fjáraukalögum. Ég velti fyrir mér hvort það hljóti ekki að hafa áhrif fyrir þá sem eru í þessari uppbyggingu ef aldrei er á neitt treystandi. Það væri gott ef að maður væri í ferðaþjónustunni að vita kannski fimm til tíu ár fram í tímann að þessi sjóður verður alltaf þarna og hægt verði að sækja í hann. Mér dettur í hug að það hafi kannski ekki verið farsælt hvernig var skorið ört niður og síðan samt bætt í eins og við höfum rætt hér, ég og hæstv. ráðherra.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt hér um framlög til rannsókna á ferðaþjónustunni, sem eru allt of lág, og ég sendi skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra síðasta vetur þar sem ég bað um sundurliðun á því fjármagni sem fer í rannsóknir á annars vegar iðnaði og sjávarútvegi og hins vegar landbúnaði og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan situr eftir, þetta eru smápeningar sem verið er að setja í rannsóknir á þessari mikilvægu atvinnugrein. Mér þykir ekki gott ef draga á úr þessu 60 millj. kr. framlagi, sem mig minnir að hafi farið að mestu leyti á Bifröst og Rannsóknamiðstöð ferðamála í ár. Ég held að það þurfi rannsóknir í ferðaþjónustu og spyr hæstv. ráðherra út í það og kannski líka út í ferðaþjónustureikninga sem Hagstofan á að sjá um en vildi fá aukið fjármagn til þess vegna þess að þetta er mikilvægt verkefni. Nú er Hagstofan undir forsætisráðherra sem mætti ekki þannig að ég hef ekki getað spurt hann að þessu. Þekkir hæstv. ráðherra stöðuna, hvort það sé ekki mikið þjóðþrifamál að Hagstofan sinni þessum ferðaþjónustureikningum og hvort það sé tilfellið í dag? Ég vissi að það átti að setja upp litla deild og hvort það fékkst ekki fjármagn í það í fyrra eða í ár, ef ráðherra þekkir til málsins þætti mér vænt um svör.