145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi ferðaþjónustureikningana, sem er orðið sem ég mundi bara á ensku hérna áðan og ég biðst forláts á því, þá höfum við verið að vinna þá síðan árið 2013. Það er samkvæmt samningi ráðuneytis míns við Hagstofuna þannig að þeir eru unnir núna. Ég held samt að Hagstofan sé ekki með þetta innan húss heldur kaupi verktaka til að sjá um það. Þessir reikningar eru mjög mikilvægir og kallað var eftir þeim nánast frá fyrsta degi frá því að ég kom í ráðuneytið, vegna þess að þeir voru skornir af á síðasta kjörtímabili. Við bættum úr því strax árið 2013.

Í tillögum Hagstofunnar, sem heyrir undir forsætisráðherra eins og þingmaðurinn nefnir, er líka tillaga — nú man ég ekki upphæðina en það er fjárlagatillaga vegna rannsókna á ferðavenjum. Það er því verið að bæta þar við. Ég tek algjörlega undir það. Það er eitt af því — þó að ég upplýsi ekki hér um niðurstöðuna í stefnumótuninni — sem verður lögð áhersla á. Við þurfum að hafa áreiðanleg gögn til að geta sett stefnuna til framtíðar í þessari grein eins og öðrum atvinnugreinum. Við munum bæta úr því.

Varðandi fjárveitinguna sem er að falla niður þá var hún tímabundin, kom inn í fyrra í fjárlaganefndinni. Hún rúmaðist ekki innan okkar ramma að þessu sinni, en þetta er eitthvað sem við erum mjög meðvituð um að þurfi að bæta úr og erum að vinna að því með greininni að finna framtíðarstefnu sem við getum farið að vinna eftir og kallað eftir fjármagni til.

Fyrirsjáanleiki í framkvæmdasjóðnum. Ég get alveg tekið undir að auðvitað hefur það áhrif. Það var eitt af því sem náttúrupassinn átti að tryggja, fyrirsjáanlega fjármögnun í þennan sjóð til langrar framtíðar. Ein af ástæðum fyrir því að peningarnir ganga ekki út er að menn hafa verið að sækja í verkefni sem þeir hafa kannski (Forseti hringir.) ekki endilega verið að sækja til enda. Síðan klárast peningurinn eða mótframlagið eða hvað, það strandar á því (Forseti hringir.) og það er það sem við erum að finna út. Auðvitað er fyrirsjáanleiki lykilatriði í þessu samhengi.