145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:49]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Til að ítreka það sem áður hefur komið fram í þessari umræðu þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um að hætta við Ísland allt árið. Það er fullfjármagnað út næsta ár. Við munum koma með fjárlagatillögu fyrir fjárlögin 2017 þannig að ef ákveðið verður að halda því áfram rofnar ekki sú tímalína. Það er hlutur sem við þurfum að skoða áfram. Ég nefndi að það væri ákveðinn tregða hjá atvinnulífinu eða hjá þeim fyrirtækjum. Þá veltir maður fyrir sér, ef fyrirtækin sjálf telja ekki ástæðu til að verja peningum í þetta, á ríkisvaldið að vera að gera það eða getum við gert það einhvers staðar annars staðar? Hin hliðin á peningnum er að í markaðssetningunni erum við að markaðssetja þær áherslur sem við viljum auka. Þess vegna verður það lykilatriði í stefnumótuninni og því sem út úr henni kemur. Við munum ganga í takt með þetta.

Við höfum verið að markaðssetja Ísland allt árið. Það hefur gengið ljómandi vel. Nú erum við að fókusa meira á allt Ísland allt árið og meginþungi átaksins Ísland allt árið núna er landsbyggðin. Ég held að það sé nauðsynlegt og skilar vonandi góðum árangri.

Út af ummælunum „ef maður kemst ekki á salerni á Íslandi“ vil ég líka hvetja okkur til að tala um þau mál, og það á ekkert sérstaklega við um hv. þingmann, af yfirvegun. Ferðamenn komast á salerni á Íslandi. Það er víða búið að byggja upp fyrirmyndaraðstöðu. Mér fannst umræðan í sumar fara aðeins út í öfgar vegna þess að það var eins og ekkert hefði verið gert og hér væri allt í kaldakoli. Ég fór víða í sumar, skoðaði þetta með eigin augum á miklum álagstímum og það má víða gera bragarbót en þetta er ekki í slíkum ólestri eins og maður skyldi ætla af umræðunni.

Nýsköpunin og Tækniþróunarsjóður. Það er mjög ánægjulegt að geta bætt í hann. Ég ítreka að það var ekki illvilji (Forseti hringir.) eða af því að menn höfðu ekki trú á sjóðnum sem fjárfestingaráætlunin svokallaða var slegin af á sínum tíma (Forseti hringir.) heldur vildum við vera búin að tryggja fjármögnun. (Forseti hringir.) Það höfum við gert núna og hún er tryggð til næstu ára.