145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nokkrum fjárlagatillögum þeirra málaflokka sem ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á. Í heildina litið eru útgjöld til þeirra rúmir 20 milljarðar, þar inni er rekstrarkostnaður ráðuneytisins rúmlega 800 millj. kr.

Fyrst ber að geta þess að gert er ráð fyrir tæplega 1.800 millj. kr. fjárveitingu til haf- og vatnarannsókna, rannsókna- og ráðgjafastofnunar sem komið verður á fót á grunni Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar. Gert er ráð fyrir að fjárheimildir þessara stofnana muni flytjast á nýjan fjárlagalið en stofnanirnar tvær fengu samtals 1.860 millj. kr. fjárveitingu í gildandi fjárlögum og jafngildir þetta því rúmlega 63 millj. kr. lækkun milli ára að meðtöldum launa- og verðlagshækkunum að fjárhæð 94 millj. kr. Það skýrist af nokkrum tilefnum og ætla ég að fara aðeins yfir það.

Í fyrsta lagi fellur niður tímabundið 150 millj. kr. framlag vegna hvalatalningar við Ísland á árinu 2015 sem var gefið út til þessa árs og fór fram á árinu og kemur þar með ekki til með að vera áfram í fjárlögum. Í öðru lagi fellur niður tímabundið 50 millj. kr. framlag vegna endurnýjunar og viðhalds tækjabúnaðar á árinu 2015 sem var einskiptisviðbótarfjárveiting á því ári. Í þriðja lagi er lagt til að veitt verði tímabundið 50 millj. kr. framlag í eitt ár vegna biðlaunakostnaðar við að koma haf- og vatnarannsóknum á fót. Ég veit að þingmenn þekkja það að í frumvarpi um haf- og vatnarannsóknir var gert ráð fyrir að öllu starfsfólki beggja stofnana yrði boðið starf hjá nýrri stofnun. Hluti starfsmanna á biðlaunarétt og er gert ráð fyrir að einhverjir þeirra nýti sér hann.

Ekki er sem sagt verið að draga úr fjárveitingu til þessa málaflokks heldur verður hagræðingin eftir í nýrri stofnun og ætti það að efla rannsóknir enn frekar. Frumvarp um sameiningu þessara tveggja stofnana hefur aftur verið lagt fram á þinginu og ég vonast til að geta mælt fyrir því sem fyrst og treysti á gott samstarf við atvinnuveganefnd og þingið til að það gangi hratt og vel fyrir sig, enda var það komið á lokametrana síðastliðið vor en náðist ekki að klára það í þinglokunum síðastliðið sumar.

Þá er einnig lagt til að veitt verði tímabundið 80 millj. kr. framlag til næstu fimm ára til verkefnis sem kallað er Matvælalandið Ísland. Þetta er uppbyggingarverkefni til þess að taka á því meðal annars, eins og rætt var hér áðan, að vaxandi fjölda ferðamanna í heiminum velur áfangastað vegna matarmenningar og upplifunar sem tengist mat með einum eða öðrum hætti. Markmiðið er að auka verðmætasköpun með því að vekja áhuga fólks á að upplifa og njóta afþreyingar sem byggist á matarhefðum, læra að matreiða og kynnast framleiðslu og uppruna, sögu og hefðum. Kostnaðurinn felst í stefnumörkun og innra starfi verkefnisins, rannsóknum, kynningarefni og markaðsstarfi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og utanríkisráðuneytið standa saman að verkefninu og verður umsjón þess hjá Íslandsstofu.

Sem uppbyggingarverkefni til næstu ára er einnig lagt til að 25 millj. kr. tímabundið framlag verði veitt til næstu fjögurra ára til markaðsverkefnisins um íslenska hestinn, sem er samvinnuverkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og helstu hagsmunasamtaka í hestamennsku. Atvinnugreinin mun leggja til mótframlag að jöfnu við framlag ríkisins. Verkefnið snýr að sameiginlegu markaðsstarfi til kynningar á íslenska hestinum og á vörum og þjónustu tengdri honum, ekki bara hér innan lands heldur í heiminum öllum.

Þá er lögð til 9 millj. kr. hækkun á fjárheimild vegna kostnaðar við dýralæknisþjónustu á Norður- og Austurlandi sem var talsvert til umfjöllunar hér síðastliðinn vetur. Vegna erfiðra samgangna, einkum yfir vetrarmánuðina, er þörf á að skipta upp svokölluðum svæðum 5 og 6, þ.e. þjónustusvæðum, samanber reglugerð 846/2001, en erfiðlega hefur gengið að manna þau án þess að til komi viðbótarfjárveiting. Einnig er rétt að geta þess að það má alveg velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að fara í heildarendurskoðun á stærð þjónustu- og vaktsvæða dýralækna á öllu landinu til að tryggja að sú þjónusta sem við viljum að þar sé veitt geti farið fram.

Þá fara 15 millj. kr. fara til Matvælastofnunar vegna kostnaðar við úttektir á vinnslustöðvum á Íslandi til að hægt sé að stunda hnökralaus viðskipti með matvæli við ríki utan EES. Þetta tengist fríverslunarsamningum. Oft þarf að gera svokallaða dýralæknissamninga eða dýraheilbrigðissamninga í kjölfarið á fríverslunarsamningum. Þessi hluti hefur í stjórnsýslunni ekki verið fjármagnaður sérstaklega en kostar ákveðna fjármuni og hér er lagt til að 15 millj. kr. fari til Matvælastofnunar til að það gangi sem best fyrir sig.

Að lokum vil ég geta þess að gert er ráð fyrir tæplega 500 millj. kr. fjárveitingu til liðarins Byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta en það jafngildir rúmlega 60 millj. kr. hækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum og erum við aðeins að bæta meðal annars í sóknaráætlanir landshluta sem menn þekkja að hefur verið nokkuð vel tekið hringinn í kringum landið, við erum að feta okkur sterkar inn þar. Á síðastliðnu vori voru samþykkt hér lög þar sem sóknaráætlanirnar voru meðal annars lögfestar sem einn liður í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.