145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnirnar. Aðeins varðandi það tvennt sem hv. þingmaður minntist á fyrr, eins og sóknaráætlanirnar, þá kom það mjög skýrt fram sem stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að þetta frumvarp, um að lögfesta sóknaráætlanir sem hluta af byggðastefnu síðastliðið sumar, var komið þarna inn. Því til sönnunar verðum við að setja aðeins meira fjármagn í þetta og þurfum án efa að halda áfram á þeirri braut, ef þessi aðferðafræði reynist eins vel og margir vona að verði.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurðist fyrir um í sambandi við dýralæknafjárheimildina er fjallað um það í lið 234 undir Matvælastofnun á bls. 321 í frumvarpinu. Það er liður í því að koma til móts við það sem við gátum að mestu leyti bjargað á síðastliðnu ári en ekki að öllu leyti, en erum að leysa úr þeim vanda á þessu svæði á þennan hátt.

Varðandi síðan aðalspurninguna og umræðuefnið, um hafrannsóknir, get ég tekið undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að stunda mjög öflugar hafrannsóknir. Á næstu árum hef ég þá trú að við sameiningu þessara stofnana verði til enn öflugri stofnun á þessu sviði og eins og kom fram í máli mínu er ekki gert ráð fyrir að sú hagræðing sem verður til við sameininguna verði tekin af stofnuninni heldur er þvert á móti ætlast til að sú hagræðing komi til stofnunarinnar sem framlag sem hún getur nýtt sér til stuðnings og vaxtar.

Á síðastliðnu ári bættum við dálítið í, annars vegar var um að ræða einskiptisaðgerð, sem er að detta út núna, vegna hvalatalningar og annarra þátta en einnig varanlega fjármuni og þau framlög halda áfram. Ég er sammála því að við þurfum auðvitað að ræða það og skoða vel í fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd og (Forseti hringir.) í þinginu hvort ástæða sé til að bæta enn frekar þar í. En staða stofnunarinnar sem slíkrar er allt önnur í ár en hún hefur verið undanfarin ár.