145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar að lokum að spyrja aðeins út í liðinn 541, sem er Byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, því að ég átti í dálitlum erfiðleikum með að skilja þetta. Það er auðvitað búið að hringla svolítið með þetta. Sóknaráætlanir landshluta voru ef ég man rétt sérfjárlagaliður. Það sem ég velti fyrir mér er að framlagið til sóknaráætlana landshluta er 145 milljónir. Ég fagna því að verið sé að setja pening í þetta, ég held að það mætti jafnvel setja meira vegna þess að þetta eru vel heppnuð verkefni, þverpólitísk sátt virðist vera um það og eiginlega sama við hvern maður talar, sveitarfélög á landsbyggðinni, jafnvel líka á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hið besta mál og halda þarf áfram með það.

Síðan er þá það sem heitir byggðaáætlun. Hvað er það eiginlega? Er það einhver pottur? Hér er talað um að undir þann lið hafi til dæmis farið fjárframlag sem átti að vera vegna flutnings Fiskistofu og svo er eitthvert framlag til rannsóknastöðvarinnar, þannig að ég forvitnast aðeins um hvað þessi liður er nákvæmlega. Getur hann verið bara hvað sem er eða er þetta alltaf það sama? Er hann á forræði ráðuneytisins eða Byggðastofnunar? Ég vil aðeins forvitnast meira um það sem heitir byggðaáætlun.