145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því og hef heyrt það hér í þinginu og hvarvetna sem maður kemur að menn eru nokkuð ánægðir með hugmyndafræðina sem sóknaráætlanir landshluta byggja á. Þess vegna lögfestum við það í þinginu í vor sem sýnir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.

Við getum verið sammála um að 145 milljónir til átta landshluta séu ekki svakalega miklir peningar, ef ég man rétt voru þeir 100 milljónir á yfirstandandi ári, það er þó aukning upp á 45 milljónir. Búið er að gera samninga við landshlutasamtökin til fimm ára, ef ég man rétt, um dreifingu á þeim fjármunum. Byggðaáætlunarpeningarnir upp á 340,6 milljónir eru sem sagt vaxtarsamningarnir og menningartengdu ferðasamningarnir sem við erum búin að koma inn í einn kanal. Það er líka fjallað aðeins um það í þessari lögfestingu okkar hvernig við sjáum fyrir okkur þetta kerfi, stýrinet ráðuneytanna þar sem öll ráðuneytin koma saman og fulltrúi sambandsins og landshlutanna er þar einnig. Það er orðið svona einhvers konar framkvæmdastjórn eða yfirstjórn, samráðsstjórn, og síðan hafi verið gerðir samningar á grundvelli þessa við landshlutasamtökin þannig að peningarnir fari í raun og veru í gegnum þennan kanal frá ríkinu, þennan eina, og dreifist síðan til landshlutasamtakanna með fyrirséðum hætti. Búið er að gera slíka samninga við alla þessa aðila til einhverra ára og búið hefur verið til einhvers konar líkan um það hvernig peningarnir dreifast. Við gerðum á síðasta ári tilraun til þess að lagfæra þá skiptingu sem hafði orðið á milli landshlutanna vegna þess að samningar höfðu verið gerðir á ólíkum tíma og af ólíkum ríkisstjórnum og voru með mismunandi vægi í ólíkum landshlutum. Við stigum nokkuð gott skref í því á síðasta ári og ég held að um þetta ríki nokkur sátt. Þarna er sem sagt 15% aukning sem við erum að færa fram í þessa tvo liði.