145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér gefst mér kærkomið tækifæri til að fara yfir þær áherslur sem ég tel brýnastar af þeim fjölmörgu verkefnum sem heyra undir embætti félags- og húsnæðismálaráðherra í velferðarráðuneytinu. Það ætti ekki að koma hér neinum á óvart að þar set ég húsnæðismál heimilanna í fyrsta sæti, en lífeyrismál og bættur hagur lífeyrisþega er einnig mál sem ég legg ríka áherslu á. Áður en lengra er haldið vil ég minna á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í sumar þar sem kynntar voru viðamiklar ráðstafanir og aðgerðir stjórnvalda, m.a. á sviði velferðar- og húsnæðismála, í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Þau helstu mál sem ég mun standa fyrir á komandi vetrum munu sannarlega litast af þessari yfirlýsingu enda lít ég á hana sem mikilvægan sáttmála og grunn að aðkallandi og mikilvægum úrbótum í þágu heimilanna og fjölskyldnanna í landinu.

Virðulegi forseti. Núna höfum við fengið kynninguna á fjárlagafrumvarpinu og þriðja árið í röð er gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum. Þrátt fyrir eða kannski einmitt vegna þess að gætt hefur verið aðhalds í ríkisfjármálum hefur skapast svigrúm til að gera betur á sviði velferðarmála. Það er svo sannarlega ánægjulegt fyrir ráðherra í mínu embætti.

Ég ætla að stikla á stóru tölunum í stuttu máli til að setja hlutina í samhengi. Framlög til félags- og húsnæðismála eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu rúm 45% af útgjöldum velferðarráðuneytisins, þ.e. tæplega 133,5 milljarðar kr. Þetta er 7,7% aukning frá fyrra ári. Alls nemur aukning til almannatryggingakerfisins á næsta ári 11 milljörðum kr. eins og ég vík að nánar hér á eftir.

Aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum landsmanna eru forgangsverkefni og gert er ráð fyrir að 2.640 millj. kr. verði varið samtals til uppbyggingar á félagslegu húsnæði og í nýtt húsnæðisbótakerfi. Bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 9,4% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem leiðir samtals til 9,6 milljarða kr. útgjaldaauka þannig að þegar einnig hefur verið tekið tillit til fjölgunar lífeyrisþega og annarra breytinga nemur hækkunin samtals 11 milljörðum kr.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ef litið er til uppsafnaðrar hækkunar á lífeyrinum 2014 og 2015 nemur hún samtals 12,7% og til ársins 2016 verður hún 16,6%. Á sama tímabili er spáð uppsafnaðri verðbólgu sem nemur 8,7% sem sýnir að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris eykst umtalsvert. Atvinnuleysisbætur verða einnig hækkaðar um 9,4% sem eykur útgjöldin um 1,1 milljarð kr. og það er að sjálfsögðu mikilvæg hækkun fyrir þá sem eru svo ólánsamir að hafa ekki launaða vinnu. Um leið og ég nefni þetta vil ég líka benda á þá ánægjulegu staðreynd að heildarútgjöld til atvinnuleysistrygginga hafa hins vegar lækkað ört á síðustu missirum eftir því sem atvinnuástandið í landinu hefur batnað.

En þá að húsnæðismálunum. Rúmum 1,1 milljarði kr. verður varið til aukins húsnæðisstuðnings við leigjendur á almennum leigumarkaði á næsta ári og um 1,5 milljörðum kr. til uppbyggingar félagslegs leiguhúsnæðis. Ég mun á næstunni leggja fram þau frumvörp sem varða útfærslur á þeim breytingum og úrbótum sem gerðar verða í húsnæðismálum. Saman miða þessi frumvörp að því að stuðla að fjölgun ódýrra eða hagkvæmra íbúða, auka öryggi leigjenda, jafna stuðning hins opinbera til leigjenda og kaupenda, tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma, hækka húsnæðisstuðning við leigjendur á almennum markaði, lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og greiða leið fólks til kaupa á fyrstu íbúð.

Grunnfjárhæð húsnæðisbóta verður hækkuð sem og frítekjumörk og við útreikning bóta munu fjárhæðir taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna líkt og verið hefur. Með þessu móti tek ég tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili. Markmiðið er að auka húsnæðisstuðning við leigjendur þannig að hann verði jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins. Við munum síðan leggja grunn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema um 30% af stofnkostnaði.

Ráðgert er að hefja átak í uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis á næsta ári og verja til þess 1,5 milljörðum kr. Þetta er í samræmi við áðurnefnda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga. Í henni var lýst ákvörðun stjórnvalda um að byggja 2.300 leiguíbúðir á næstu fjórum árum sem yrðu fjármagnaðar með þeim hætti sem ég nefndi áðan.

Á vegum stjórnvalda eru nú starfandi vinnuhópar með hagsmunaaðilum þar sem unnið er að nánari útfærslu þessara aðgerða og er ráðgert að þær útfærslur muni liggja fyrir síðar í haust fyrir afgreiðslu Alþingis á fjárlagafrumvarpinu. Miðað er við að lögaðilar sem hyggjast byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði geti verið sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verða skorður við því að hægt verði að taka íbúðir út úr félagslega leigukerfinu en verði slíkt heimilt verða sett inn ákvæði um ráðstöfun söluhagnaðar.

Þessu til viðbótar, því að hér er maður að fara yfir stóru liðina, vil ég geta um það sérstaklega að framlög til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs verða aukin um 450 millj. kr. á næsta ári í samræmi við samkomulag stjórnvalda og heildarsamtaka vinnurmarkaðarins frá því í mars síðastliðnum þar sem kveðið var á um hvernig framlögum úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða skyldi háttað. Samkomulagið tryggir að öllum sem á þurfa að halda sé nú tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing til að verða virkir á vinnumarkaði.

Vegna umræðu um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk er vert að nefna það hér að framhald þessa verkefnis verður tryggt með 85 millj. kr. árið 2016. Alþingi samþykkti á síðasta þingi lagabreytingu sem kvað á um að áfram yrði unnið að NPA sem tilraunaverkefni til ársloka 2016 og faglegt og fjárhagslegt mat (Forseti hringir.) á verkefninu stendur nú yfir. Það er stefnt að því að ljúka því mati í lok næsta árs og þá verði einnig lokið endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks.