145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir yfirferð hennar um þau mál sem snúa að henni. Mig langar að byrja aðeins á húsnæðismálunum og vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um að verið sé að gera talsvert minna en ég held að mörg okkar hafi gert sér vonir um miðað við það hvernig umræðan hefur verið. Ég tek undir að það að ætla að kaupa eða byggja 400 leiguíbúðir sé einfaldlega ekki nóg.

Ég tók líka eftir að hæstv. ráðherra varð tíðrætt um að byggja ætti hagkvæmar og ódýrar íbúðir og mig langar af því tilefni að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að byggingarreglugerð hefur nú verið talsvert í umræðunni þegar kemur að húsnæðismálunum, hvort hún telji ásættanlegt að slá af kröfum um aðgengi þegar á að fara að byggja almennt leiguhúsnæði. Ég vildi heyra sýn hennar á það.

Svo eru það húsaleigubæturnar en hér er gert ráð fyrir rúmlega 1 milljarði í hækkun húsaleigubóta. Mig langar í tengslum við það að spyrja um það frumvarp sem hæstv. ráðherra lagði fram í vor um húsnæðisbætur. Það fékk þá gagnrýni á sig, m.a. í umsögn frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að það næði ekki markmiðum sínum um að gagnast tekjulágum nógu vel. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra ætli að skoða eða breyta einhverju þegar kemur að því hvernig húsaleigubæturnar verða reiknaðar og þeim ráðstafað.

Svo langar mig aðeins að koma inn á örorkubæturnar því að hér er vissulega verið að leggja til nokkra hækkun á bótum. Í umræðunni í gær sagði hæstv. fjármálaráðherra að augljós ábati eigi að vera af því að fara út á vinnumarkaðinn, og ég vil taka fram að hann sagði það í tengslum við atvinnuleysisbætur, en ég tel að þetta eigi líka við um öryrkja og þar er mikið um ósanngjarnar tekjutengingar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það.

Kom aldrei til greina, þegar verið var að fjalla um hækkun bóta, að vinda ofan af þeim tekjutengingum sem nú þegar eru í kerfinu til að öryrkjar ættu þess (Forseti hringir.) frekar kost að auka ráðstöfunartekjur sínar með atvinnu? Ég spyr hvort sú umræða hafi aldrei komið upp þegar verið var að ræða um hvaða leið ætti að fara til að bæta hag öryrkja.