145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að heyra að hún hafi bækling, þó svo að ég hafi ekki séð hann, um það hvernig megi ná þessu tvennu, ég fæ hann hjá hæstv. ráðherra á eftir, að saman fari hagkvæmar íbúðir þar sem hugað er líka að aðgenginu.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess í störfum sínum í framhaldinu að halda þessu sjónarmiði vel til haga því að ég held að raunveruleg hætta sé á því að skammtímahugsun verði látin ráða för. Við vitum jú að þjóðin er að eldast og það mun í framtíðinni vera þörf á aðgengilegu húsnæði og jafnvel í auknum mæli frá því sem við sjáum nú.

Ég fékk ekki svör við því áðan hvort það hefði eitthvað verið skoðað hvað varðar tekjutengingar eða breytingar á því, ég treysti því að hæstv. ráðherra komi inn á það í síðara svari sínu.

En mig langar líka að spyrja út í bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Á bls. 376 í fjárlagafrumvarpinu má sjá að frekari uppbætur, þá á lífeyrisgreiðslur, eru að lækka gríðarlega mikið núna á milli ára, eða um 40,7%. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það. Frekari uppbætur eru þannig bætur að þær eru miðaðar við krónutölu. Er það svo að með hækkun örorkubóta gerist það að stór hópur lífeyrisþega fari upp úr þeim viðmiðum sem notuð eru til að frá uppbætur? Ef svo er þá spyr ég hvort það hafi verið skoðað hvernig þetta skilar sér að lokum, hvaða breytingar þetta hefur í för með sér á lokaráðstöfunartekjur öryrkja.