145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna, ég náði ekki að svara öllum spurningunum í fyrra svari. Ég tek undir ábendingar þingmannsins um mikilvægi þess að lífeyrisþegar hafi möguleika á að taka þátt í vinnumarkaðinum. Í bandormi fjármálaráðherra, sem snýr tað tekjuhliðinni, er einmitt gert ráð fyrir að framlengja það frítekjumark sem snýr að öryrkjum á árinu 2016. Aftur er vísað til þess að því miður er vinnu hvað varðar heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu ekki lokið þar sem menn hafa verið að horfa til upptöku á starfsgetumatinu og verulega einföldun á kerfinu.

Við erum að bíða eftir að fá þær tillögur áður en við förum í slíkar breytingar, eins og hv. þingmaður ræddi hér, á tekjutengingunum. Varðandi uppbæturnar höfum við, samkvæmt mínum upplýsingum, verið að fara yfir það með fjármálaráðuneytinu og teljum að þar sé ekki um réttar tölur að ræða þannig að fjárlaganefnd þurfi þá að fara yfir það og leiðrétta við 2. umr.