145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:16]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að gera á greinargóðan hátt grein fyrir þeim atriðum í fjárlagafrumvarpinu sem snúa að ráðuneyti hennar. Ég vil byrja á að ræða þau mál sem eru mjög veigamikil og skýr merki eru um í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016, sem er uppbygging á húsnæðismarkaði. Ég veit vel að mikil vinna hefur farið fram í ráðuneyti hæstv. ráðherra undanfarna mánuði, eða bara frá því að hún tók við þessu starfi, og það hefur mikið samráð verið haft við marga aðila í því að byggja þessi frumvörp. Nokkur þeirra hafa komið fram og verða lögð fram aftur auk annarra.

Það hefur komið gagnrýni frá meðal annars nokkrum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að þetta dugi engan veginn til, en við verðum að líta til þess að þetta eru um 400 íbúðir og það er 400 íbúðum meira en við höfum séð hingað til. Þetta eru mjög stór skref, þetta eru 1,6 milljarðar sem við sjáum setta í uppbyggingu á þessu. Við erum með stofnstyrki, ef ég skil þetta rétt, sem eru ákveðin prósenta af verði íbúðar. Þar kem ég að fyrstu spurningunni sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra. Það hefur verið mikil umræða um að stofnstyrkirnir séu til byggingar á félagslegu leiguhúsnæði eða handa fólki sem hefur lágar tekjur og er í lægstu þrepum millitekna. Er rétt skilið hjá mér að þetta geti líka átt við ef lögaðilar sem frumvarpið nær til hyggjast kaupa til dæmis blokk, víða um landsbyggðina eða á sumum stöðum er t.d. tómt húsnæði, væri hægt að kaupa í staðinn fyrir að byggja? Hefur það eitthvað verið kannað? Það er mikil þörf á leiguhúsnæði, m.a. á landsbyggðinni, og þegar maður hefur verið að tala um þetta á ferð um landið hefur mikið verið spurt hvort stærri sveitarfélögin muni kannski ná að sækja í allar þær íbúðir eða allt það fjármagn sem fer í þetta verkefni. Er hugað að því að það verði eitthvað X sem fari til landsbyggðar og X fjöldi sem verði í höfuðborginni, eða á eftir að útfæra það í þeirri frumvarpsvinnu sem eftir er?