145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum enn á ný fyrir spurningar hennar og orð. Það sem ég vil benda á er til dæmis umsögn stúdentaráðs um frumvarpið um breyttan húsnæðisstuðning við leigjendur. Þar kemur mjög skýrt fram hvaða áhrif þær breytingar sem þar er verið að leggja til munu hafa fyrir þúsundir námsmanna. Ég hef þegar nefnt jákvæða umsögn frá ASÍ um breytingarnar sem snúa einmitt sérstaklega að almenna leigumarkaðnum. Tölur hjá okkur sýna að þau heimili sem búa við hvað mest íþyngjandi húsnæðiskostnað eru leigjendur á almenna húsnæðismarkaðnum og munar þá allt að helming versus þá sem eru til dæmis í sérstökum úrræðum. Þetta er mjög mikilvægt.

Síðan eru það líka þær skattbreytingar sem við erum að gera varðandi leigutekjurnar, þær hjálpa vonandi til. Til viðbótar mun þetta vonandi skapa ákveðið svigrúm þannig að fólk sem er á leigumarkaðnum geti nýtt sér húsnæðissparnaðarleiðina, sem við ætlum að gera varanlega til þess að tryggja að fólk geti lagt til hliðar og keypt sér eftir ákveðinn tíma eigið húsnæði. Eins og hv. þingmaður þekkir ágætlega eftir vinnu sína í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og þær tillögur sem hún lagði fram og við höfum verið að vinna eftir þá er raunar engin ein tillaga sem dugar til heldur er þetta svo stórt mál að vinna þarf eftir mörgum tillögum. Það endurspeglast svo sannnarlega í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga.

Ég vil líka segja að þingið er komið með fjárlagafrumvarpið, það fer núna í meðferð fjárlaganefndar og þar sem húsnæðismálin eru einfaldlega hluti af kjarasamningum, ein lykilforsenda þess að við náðum samningum til fjögurra ára eftir erfiða vinnudeilu, hlýtur fjárlaganefnd að fara yfir þær ábendingar sem koma frá aðilum vinnumarkaðarins varðandi einstök atriði sem snúa að okkar hluta en einnig að öðrum þáttum sem má finna víða í fjárlagafrumvarpinu og tengjast kjarasamningum.