145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:26]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir yfirferð hennar. Mig langar að gera að umræðuefni þann vanda sem við teljum ríkja í mannréttindamálum fatlaðs fólks og komið hefur fram í almennri umræðu og í vinnuumhverfi mínu, að sveitarfélög telji sig ekki geta staðið undir þeim kostnaði sem málaflokknum svokölluðum fylgir. Á sama tíma hrósar ríkisstjórnin sigri yfir að eiga afgang og velur samt að leggja lítið til málaflokksins umfram það sem komið er, málaflokks sem hefur verið í fjársvelti lengi ef ekki alltaf, líka í hinu svokallaða góðæri.

Í tilraunaverkefninu um notendastýrða persónulega aðstoð er gott dæmi um þetta, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á áðan. Við vitum að þau sveitarfélög sem taka þátt í verkefninu greiða 80% af NPA-samningi sem eru 51 talsins. Jöfnunarsjóður úthlutar svo 20% af hverjum samningi til sveitarfélaga með fjármagni eyrnamerktu NPA-tilraunaverkefninu. Þessi 80% eru hins vegar fjármögnuð í gegnum almenn framlög úr jöfnunarsjóði og byggjast í flestum tilvikum á einingarverði SIS-matsins.

Þrátt fyrir að kjarasamningahækkanir hafi verið reglulegar frá 2011 hefur einingarverð á grundvelli SIS-mats ekki hækkað frá upphafi. Nýjustu kjarasamningahækkanir munu líklega valda 10–12% hækkun fyrir hvern gildan samning ofan á þær kjarasamningahækkanir sem átt hafa sér stað frá byrjun. Einnig er áætluð 5% hækkun vegna kjarasamninga á næsta ári.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra virðist sem viðbótin sem leggja á í verkefnið snúi bara að þessum 20% óbreyttum en að ekki sé verið að tala um að leggja neitt til þeirra 80% sem sveitarfélögin eiga að standa straum af.

Við getum öll haft mismunandi skoðanir á því hver beri ábyrgð á hverju, ríki eða sveitarfélag, en á meðan flestir halda að sér höndum og neita jafnvel að hlusta hver á annan eru mannréttindabrot framin á fötluðu fólki og/eða starfsfólki þess sem hefur rétt til kjarabóta líkt og starfsfólk sem vinnur fyrir fatlað fólk í aðgreindum búsetuúrræðum.

Mér leikur því forvitni á að vita hver afstaða hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er í þessum málum með 80% og hvernig hún ætli að beita sér fyrir samtali á milli þeirra sem bera sameiginlega ábyrgð á þessum málaflokki.