145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir hvatningu og orð hennar. Við eigum í samtali við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin um málefni fatlaðs fólks. Farið verður yfir það sem snýr að skiptingu fjármuna á milli ríkis og sveitarfélaga við meðferð frumvarpsins í þinginu og ég veit að sveitarfélögin munu koma á framfæri við fjárlaganefnd áhyggjum sem snúa að verkefnum þeirra bæði hvað varðar fatlað fólk og fjölmörg önnur verkefni. Það sem við höfum lagt áherslu á, og er mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að hafa það í huga, er að fatlað fólk á rétt á þjónustu, það er algerlega skýrt. Verkefnið NPA er tilraunaverkefni. Við höfum verið að vinna að því að útfæra það í samstarfi við fötluðu einstaklingana og við sveitarfélögin þar sem munurinn á að felast í því að fólk geti sjálft stýrt þeirri þjónustu sem það fær. En grundvallarhugsunin er hins vegar sú að fatlaðir einstaklingar eiga rétt á þjónustu. Við þurfum síðan að fara yfir reynsluna af yfirfærslunni hvað hefur gengið vel og hvað hefur gengið illa, og meðal annars ástæðu þess að við höfum séð verulega aukningu á fólki í þjónustu hjá sveitarfélögunum og hver skýringin getur hugsanlega verið á því.