145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Á ég að trúa því að velferðarráðherra viti ekki hvað það mundi kosta að láta aldraða og öryrkja njóta sömu kjarabóta og aðrir fá í landinu? Hefur það ekki einu sinni verið reiknað út í velferðarráðuneytinu sem rætt hefur verið um land allt í öllum stéttum undanfarna daga? Aldraðir og öryrkjar hafa vakið athygli á því meðal annars að á yfirstandandi ári eru opinberir starfsmenn að fá úr ríkissjóði, ýmsir hópar, kjarabætur frá 1. maí og það er vel. Þeir fá ávísanir upp á það alveg óháð fjárveitingum, alveg óháð lagagreinum, af því að þeir eiga einfaldlega rétt til þeirra kjarabóta.

Aldraðir og öryrkjar hafa spurt: Hvers vegna fáum við ekki þessar kjarabætur afturvirkt frá 1. maí? Á ég að trúa því að velferðarráðherrann hafi ekki einu sinni látið reikna út hvað það mundi kosta, hvað þá að gera kröfu á fjármálaráðherrann eða ríkisstjórnina að þeir sem eru sannarlega skjólstæðingar hennar, lífeyrisþegar, fengju þessar bætur á yfirstandandi ári? Veit ráðherrann heldur ekki hvað það mundi kosta á árinu 2016 að láta aldraða og öryrkja fá sömu kjarabætur og þá lægst launuðu? Hefur það heldur ekki verið reiknað út í ráðuneytinu? Ég neita bara að trúa því að við séum þarna stödd, ég lifði í þeirri sælu trú að hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir hefði barist með oddi og egg fyrir því að þeir hópar fengju kjarabætur. Ég hafði trú á hennar góða hug í því að hún talaði máli þeirra hópa, stundum fyrir daufum eyrum í ríkisstjórninni. En hefur þessi krafa ekki verið gerð? Hefur það ekki einu sinni verið reiknað út hvað réttlætið mundi kosta í sjálfu ráðuneytinu?