145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar enn á ný fyrir ræðu hans og áherslur. Við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun svo sannarlega að mikilvægt er að huga að lífeyrisþegum landsins. Við sjáum verulega fjármuni í fjárlagafrumvarpinu fara til hækkunar á bótum almannatrygginga og í atvinnuleysistryggingum þannig að hvort sem við tölum um krónutölur eða prósentutölur þá held ég að nánast sé hægt að fullyrða að við höfum ekki séð annað eins.

Það kemur alveg skýrt fram í frumvarpinu hvernig þessi tala er reiknuð út þar sem við tökum tillit til launaþróunar bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Hv. þingmaður þekkir líka ágætlega til þess að starfandi er nefnd um endurskoðun á almannatryggingunum þar sem verið er að vinna að útfærslu á grundvallarbreytingum á almannatryggingakerfinu sem mun kosta verulega fjármuni. Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalagið hafa lagt áherslu á að ljúka þeirri vinnu og við förum í að framfylgja þeim tillögum varðandi breytingar á upphæðum og bótaflokkum almannatrygginga.