145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir það sem hún sagði hér í lokin um varasjóðinn. Vissulega var byggt upp á sínum tíma mikið af húsnæði mjög víða. Það var sá tími sem var uppi. Það breytir því ekki að hún veit væntanlega jafn vel og ég að víða stendur þetta atvinnuppbyggingu fyrir þrifum. Eins og hér var nefnt fyrr í dag fæst fólk jafnvel ekki til starfa, það vantar kennara eða aðra til starfa en það fólk fær ekki húsnæði. Það er ekki allt út af ferðaþjónustunni, það er að hluta til vegna þess sem ég nefndi áðan að það vantar meira húsnæði.

Mér fannst ég ekki fá skýr svör um þetta. Það er ekki bara að sveitarfélög byggi heldur hvort hægt er að bregðast við ef einstaklingar ákveða að byggja. Getum við gert eitthvað til þess að laga þá stöðu? Það er rangt að þetta sé svona, að fasteignamatið og verðmyndun eigna sé með þeim hætti sem landsbyggðin býr við. Það er örugglega ekki til ein einföld lausn, ég er ekki að óska eftir henni sisvona hér, en þetta er samt eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Þess vegna er mjög mikilvægt að undanskilja ekki sveitarfélögin.

Hér var nefnt að Norðurþing hefði haft samband. Það er auðvitað spurning hvort sveitarfélögin fái formlegt erindi um þetta, nú veit ég ekki hvort svo hefur verið, það væri áhugavert að vita það af því að ráðherra kallar eftir því að greining á þörf þurfi að fara fram, hvort leggja eigi að sveitarfélögum með það. Þar sem ég hef verið að fara um, m.a. norður í Árneshreppi, vantar húsnæði og það er ekki vegna þess að það sé leigt út fyrir ferðamarkaðinn eða eitthvað slíkt heldur er þörf fyrir (Forseti hringir.) fleiri fasteignir. Það skiptir máli að sveitarfélögin viti þá af því að þau þurfi að leggja fram greiningu á þörf.