145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka í umfjöllun um málasvið þessa víðfeðma ráðuneytis. Ég ætla samt að taka eitt út úr og taka undir með hæstv. ráðherra í lokaorðum hans áðan. Það er fagnaðarefni að sjá þann viðsnúning sem orðið hefur í afstöðu ríkisstjórnarinnar til tækni- og þróunarmála og að verið sé að leggja betur í þá þætti. Það er þá gott að hér er orðin þverpólitísk samstaða um mikilvægi slíkrar fjárfestingar.

Ég vil staðnæmast við fjárveitingar vegna framhaldsmenntunar fyrir fólk yfir 25 ára aldri. Ég hef átt marga ræðuna við hæstv. ráðherra um það mál síðasta árið frá því að ákveðið var að hætta að greiða fyrir nemendur 25 ára og eldri í framhaldsskólum.

Í yfirlýsingu við gerð kjarasamninga frá því í vor var að finna fyrirheit um 200 milljóna framlag í vinnustaðanámssjóð, sem ég fagna, og svo framlag til aukinna námsúrræða fyrir fólk yfir 25 ára aldri. Í fjárlagafrumvarpinu kemur skiptingin þar á milli í ljós og til framhaldsfræðslu bætast 105 milljónir. Það er hins vegar afar erfitt fyrir okkur þingmenn að gera okkur grein fyrir því af fjárlagafrumvarpinu hvernig því verði í reynd varið og hvernig því verði skipt niður og hvort hér sé um skynsamlega ráðstöfun ríkisfjármuna að ræða eða hvort betra hefði verið að halda óbreyttu fyrirkomulagi og halda framhaldsskólunum opnum fyrir fólki yfir 25 ára aldri og greiða fyrir menntun þess þar.

Það kemur fram í frumvarpinu að ársnemendur í Keili í frumgreinanámi, í aðfararnámi eru ekki greindir, það kemur hvergi fram hvað þeir eru margir. Það er sagt að sá skóli fái framlag af fjárlagalið á málefnasviði framhaldsskóla. Þegar niðurbrotið á framhaldsfræðsluliðnum er skoðað er Keilir hvergi greindur þar. Það er því ómögulegt að átta sig á því til dæmis hvað Keilir er að fá í sinn hlut eða hvernig þessum 105 milljónum er skipt á milli einstakra símenntunaraðila.

Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti gefið okkur í þinginu greinargerð um það hvernig þessum 105 milljónum verður skipt og hver kostnaðurinn verður, hver áætlunin sé um fjölda nemenda í þessu námi.