145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ræðuna. Ég vil fyrst segja að sú aukning sem fyrirhuguð er í frumvarpinu til rannsókna og vísinda er ekki merking um viðsnúning ríkisstjórnarinnar, hún er merki um að við erum núna í betri færum í fjárlögum til að bæta í þá starfsemi og getum gert það á góðum grunni sem hægt er að standa við. Hér er ekki um að ræða óútfylltan kosningavíxil heldur er hér komið með peningana tilbúna á grundvelli öflugra ríkisfjármála.

Það er mikilvægt og endurspeglar vilja ríkisstjórnarinnar og almennan vilja þingsins, ég held við getum verið ágætlega sammála um það. Hér er um verulega aukningu að ræða til þessa málaflokks.

Hvað varðar 25 ára regluna svokölluðu vil ég ítreka að hér er verið að taka upp í meginatriðum sama fyrirkomulag og við sjáum til dæmis hjá frændþjóðum okkar Svíum og Norðmönnum, þ.e. hið norræna módel sem ég veit að hv. þingmanni er mjög hugleikið. Þar er nákvæmlega sama fyrirkomulag haft hvað varðar fullorðinsfræðslu og hvað varðar hlutverk framhaldsskólanna.

Við vitum líka, og höfum fyrir því rannsóknir, að þegar kemur að þeim sem eru eldri en 20 ára og eru í framhaldsskólunum er hlutfallslega mesta brottfallið í þeim hópi, enda er við því að búast vegna þess að námsframboðið og kennsluhættir og annað í framhaldsskólanum henta betur þeim sem eru á hinum hefðbundna framhaldsskólaaldri en fullorðnu fólki.

Símenntunarmiðstöðvarnar sem eru hér til umræðu eru auðvitað betur til þess fallnar að taka á móti fólki sem er orðið fullorðið og síðan háskólagáttirnar. Hvað varðar útfærsluna og skiptinguna á þessum fjármunum þá er lagt upp með það að eftir atvikum verði símenntunarstöðvarnar efldar, m.a. í ljósi þeirrar eftirspurnar sem verður hjá þeim varðandi námsframboðið. Þá höfum við svigrúm til að bæta í til þeirra, m.a. þegar við sjáum betur hversu mikil eftirsókn er eftir þessu námsúrræði. Síðan vil ég nefna varðandi Keili að þar er byggt á umsömdu framlagi á hvern nemanda. Framlag til nemenda þar er ekki á grundvelli reiknilíkans.