145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og biðst afsökunar á því ef ég hef farið með rangt mál í sambandi við samráð en þetta er það sem maður heyrir í samfélaginu. Það er það sem ég geri, ég hlusta á fólk þar. Ég get alveg tekið undir það að ráðherra lagði fram hvítbók og svo hafa verið miklar deilur um þetta læsisátak en það er nú annað mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tónlistarskólana. Nú hafa verið svolítil vandamál með tónlistarskólana, togstreita á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Mig langar að spyrja hann hvernig staðan á því máli er. Kemur það mál til með að leysast í vetur? Sér hann fyrir sér að endanleg niðurstaða fáist?

Ég fékk að minnsta kosti tíu símtöl frá skólastjórum tónlistarskóla í sumar, í sumarfríinu mínu, það var allt í lagi, þar sem þeir voru að knýja á um það að allsherjar- og menntamálanefnd gerði eitthvað í málinu. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra um það.

Ég þakka aukin framlög til æskulýðs- og íþróttamála þó að ég vilji meina að þau ættu að minnsta kosti að vera helmingi hærri. Ég held að allir séu sammála mér í því, og ekki síst nú í þeirri miklu sigurvímu sem ríður yfir þjóðina í kjölfar árangurs landsliða okkar, að það mætti leggja miklu meiri peninga í þau og þá er ég sérstaklega að horfa til ferðakostnaðar fyrir iðkendur úti á landi sem er gríðarlega hár — að ríkið skuli setja rúmlega 800 millj. kr. í þennan málaflokk þegar maður veltir fyrir sér að sjálfboðaliðastarfið innan íþróttahreyfingarinnar er metið á 12 til 13 milljarða.

Þetta er það sem ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra um, tónlistarskólana. Er von á niðurstöðu í því máli sem allir geta sætt sig við til langrar framtíðar? Og hvort hann sé sammála mér í því að við mættum bæta í þetta. Ég er ekki að tala um nýjan þjóðarleikvang fyrir strákana okkar þó að þeir eigi allt gott skilið.