145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Mig langar í fyrsta lagi að taka upp þráðinn frá hv. þm. Páli Val Björnssyni varðandi táknmálstúlkasjóðinn. Ég vil lýsa því sérstaklega yfir að ég er ánægð með að sjá 16 millj. kr. viðbót og auk þess 10 millj. kr. framlag til námsefnis á táknmáli og þýðingar á því. Ég held að það sé líka afar mikilvægt að þar með er ráðuneytið að viðurkenna skyldur sínar gagnvart táknmálstalandi nemendum. Þó að smátt skref sé þarna tekið þá er það sannarlega mikilvægt í sögunni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það fyrirkomulag sem hefur verið á yfirstandandi ári að skipta fjármagninu yfir árið þannig að það rennur ítrekað út og veldur þeirri erfiðu stöðu að fólk getur ekki fengið túlkun fyrr en að afloknum einhverjum vikum. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög mikið. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér þetta fyrirkomulag inn í framtíðina og sérstaklega kannski í ljósi þess dóms sem féll í vor varðandi réttinn til táknmálstúlkunar.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um Náttúruminjasafn. Þar er staðreyndin sú að við erum enn eina ferðina með 25 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu. Það þarf ekki að halda um það langa ræðu hversu dýrmæt náttúra Íslands er sem hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar en ekki síður sem segull sem laðar að ferðamenn og er undirstaða þeirrar miklu atvinnugreinar og auðvitað mikilvægur grundvöllur fyrir menntun og skólagöngu íslenskra barna. Á öflugu náttúruminjasafni gætum við verið með fræðslu um lífríki, jarðminjar, veður og vinda og fleira sem gæti bæði verið aðlaðandi fyrir börn og ungmenni en ekki síður fyrir þá sem koma hingað að heimsækja Ísland og njóta þess. Ég vil spyrja hver framtíðarsýn hæstv. ráðherra sé í þessum efnum og eiginlega spyrja hann hvort hann telji ekki fara að verða tímabært að skipa þverpólitíska nefnd um málefni safnsins um einhverja framtíðarsýn hvað þetta málefni varðar. Loks vil ég spyrja hvort ekki sé ætlunin að framfylgja lögunum frá 2007 um Náttúruminjasafn Íslands og hver afstaða ráðherrans sé þá til sýningarhalds á vegum safnsins í Perlunni.

Alveg að lokum er ég með eina spurningu í viðbót sem varðar aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Í fyrsta lagi, hvar er hann í frumvarpinu eins og það er lagt fram núna? Í öðru lagi, hvað er með (Forseti hringir.) framlög í sjóðinn inn í framtíðina, hvernig sér ráðherra þeim málum fyrir komið?