145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar breytingar á fjármögnun til framhaldsskólastigsins þá vil ég nefna að verið er að hækka framlagið til reksturs framhaldsskólanna um 100 millj. kr. Reyndar bætast við aðrar 100 millj. kr. sem koma af svokölluðum óskiptum lið framhaldsskólastigsins inni í ráðuneytinu þannig að það er alls 200 millj. kr. hækkun til rekstrargrunns framhaldsskólanna.

Síðan er rétt að taka fram að það eru 200 millj. kr. þar til viðbótar sem koma til framhaldsstigsins sem fara til símenntunarstöðvanna og síðan í vinnustaðanámsjóðinn sem er hækkun þar. Aftur á móti, og þar kemur þá að kjarna spurningar hv. þingmanns, er verið að fella niður 265 millj. kr. tímabundið framlag til eins árs vegna framkvæmda við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands og 30 millj. kr. tímabundið framlag sem var til eins árs vegna kostnaðar við sameiningu stoðstofnananna á Austurlandi. Það ætti að skýra að meginstofni til það sem hv. þingmaður var að nefna.

Ég vil þó nefna það sem er ánægjulegt sem er að gerast hjá okkur að árið 2013 þegar við vorum að gera fjárlög fyrir 2014, þá stóð það þannig hvað varðar hina margfrægu launastiku, sem er heilmikill mælikvarði á stöðuna, að 20% vantaði í fjármögnun til þess að við gætum staðið við launastikuna. Núna í þessu fjárlagafrumvarpi að þessu gefnu, reyndar með þeim fyrirvara sem snýr að kjaradómi og áhrifum hans, er mismunurinn 5%. Það er það sem okkur hefur miðað í þessu. Ég held að þetta skipti alveg gríðarmiklu máli.

Hvað varðar síðan kostnað sem getur orðið í kerfinu varðandi fjölgun nemenda eða stærri hópa sem koma upp úr kerfinu eftir þrjú ár inn í háskólann þá er alveg rétt að einhver kostnaður mun hljótast af því. Þann kostnað verður síðan að setja í samhengi við annað, þ.e. sparnað í kerfinu. Það sem þó mestu skiptir og er veruleg búbót fyrir íslenskt samfélag er að lengja starfsævi menntaðs fólks um eitt ár að meðaltali. Innan skamms kemur fram skýrsla sem sýnir hvaða tölur þar er um að ræða en það verður líka að horfa til þess að það var gríðarleg aukning inn í háskólastigið á undanförnum árum (Forseti hringir.) í kjölfar hrunsins. Við munum sjá síðan breytingar á því þannig að það þarf að horfa á heildarnemendafjöldann þegar kemur til þessa.