145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa tveggja daga umræðu sem nú hefur staðið yfir við 1. umr. fjárlaga 2016. Það hefur verið drepið á mörgum sjónarmiðum. Eins og við höfum fengið hvatningu til í meiri hluta fjárlaganefndar þá tökum við þessi sjónarmið og þessa vinnu með okkur í fjárlagavinnuna sem nú stendur fyrir dyrum. Það er með fjárlagafrumvarpið eins og önnur frumvörp, því verður væntanlega vísað til fjárlaganefndar við lok þessarar umræðu. Þar tekur við hefðbundið nefndarstarf með komu gesta og jafnframt verður frumvarpið sent út til umsagnar.

Ég ætla að segja það að lokum, virðulegi forseti, að ég hlakka til þeirrar vinnu sem er fram undan og ég vænti einstaklega góðrar samvinnu í fjárlaganefnd þvert á flokka eins og alltaf hefur verið. Ég hlakka til starfsins, ítreka það aftur, og ég sé það á ræðum þingmanna og ráðherra sem hafa talað hér á þessum tveimur dögum að það eru spennandi tímar fram undan í ríkisfjármálum. Þó að eitthvað megi lagfæra í frumvarpinu þá tel ég að þegar upp er staðið, að þessari umræðu lokinni, þurfi að breyta litlu. Það eru núningsfletir hér og þar, eins og gerist og gengur, enda sitja hér nokkrir flokkar í þinginu, en ég hef fulla trú á því að fyrir rest komum við til með að skila af okkur fjárlögum fyrir árið 2016 sem allir geta verið sáttir við.

Það sem við þingmenn þurfum að huga að er þjóðarhagur fyrst og fremst og ekki síst, eins og kom fram í ræðum í dag, að standa vörð um það að við förum ekki þá leið sem var farin hér á árum áður að skuldsetja ríkissjóð og sýna óvarkárni með því að yfirfjármagna stofnanir og verkefni ríkisins. Aðhaldið verður að vera til staðar. Ég er talsmaður þess og það á eftir að verða rauði þráðurinn í fjárlagavinnunni sem fram undan er.