145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

tekjutenging vaxta- og barnabóta.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar blaðað er í fjárlagafrumvarpi vakna auðvitað ýmsar spurningar. Það er gleðiefni að okkur skuli hafa tekist svo vel til sem raun ber vitni í viðsnúningi í ríkisfjármálum, en þá skiptir miklu með hvaða hætti það svigrúm er nýtt.

Þegar horft er á þróun vaxtabóta og barnabóta blasir við mjög uggvekjandi mynd. Meðallaun fullvinnandi manneskju voru á síðasta ári 555 þús. kr. á mánuði. Þau meðallaun hafa hækkað það sem af er þessu ári. Vaxtabætur hjóna verða nú að engu þegar meðaltekjur hvors um sig ná 590 þús. kr. Ef bæði hjón eru með meðaltekjur fá þau engar vaxtabætur.

Í barnabótunum er staðan enn verri. Þar er gert ráð fyrir sömu verðlagshækkun milli ára og í fjárlögunum almennt, upp á 3%, en skerðingarmörk hækka ekki. Barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. í mánaðarlaun. Fólk þarf ekki einu sinni að vera komið með lágmarkslaun þegar byrjað er að skerða framlög vegna barna. Hjón með eitt barn missa bætur við 409 þús. kr. í mánaðarlaun, hvort um sig.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna hefur ekki verið gerð gangskör að því að rýmka þessi mörk og mæta fólki þarna? Þessum stuðningskerfum var komið á til að styðja húsnæðisöflun fólks og til að styðja fólk í uppeldishlutverki. Það var aldrei markmiðið að einungis allra fátækustu Íslendingarnir fengju aðstoð af opinberri hálfu (Forseti hringir.) að þessu leyti. Hvers vegna hefur tækifærið ekki verið notað til að rýmka skerðingarmörkin?