145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

fyrirhuguð sala Landsbankans.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í apríl þegar Framsóknarflokkurinn hélt flokksþing sitt að þar var samþykkt dálítið merkileg ályktun um að ekki ætti að fara að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og Landsbankinn ætti að starfa sem samfélagsbanki. Umræðan eins og hún hefur verið hér á landi hefur fremur miðast við það að ríkið ætti að eiga einhvern hlut í bönkunum en að bankarnir mundu áfram starfa á sömu leið og þeir hafa starfað. Mér fannst þetta athyglisverðir tónar og hef opinberlega lýst yfir miklum áhuga á að við ræðum þessi mál í þinginu, þ.e. að sá banki sem er í eigu hins opinbera starfi samkvæmt öðrum lögmálum en við sjáum almennt í bankastarfsemi. Auðvitað er slík starfsemi vel þekkt, ég vil minna á að umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum runnu til slíkra samfélagsbanka.

Þess vegna kom það mér nokkuð á óvart að sjá í fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir því að hlutur í Landsbankanum yrði seldur, þ.e. að ekki sæi stað þessarar samþykktar flokksþings Framsóknarflokksins. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra og formann flokksins hvort Framsóknarflokkurinn standi einhuga á bak við þau áform að selja þennan hlut í Landsbankanum, því að gætum við misst ákveðið tækifæri til að breyta bankastarfsemi hér í landinu og færa hana yfir á samfélagsbankastig sem nýtur vaxandi athygli í allri umræðu í samfélaginu. Síðan hefur samflokksmaður hæstv. forsætisráðherra, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, bent á að arðurinn sem bankinn er að skila ríkinu núna miðað við óbreytta starfsemi sé verulegur, þannig að þarna finnst mér skorta ákveðna umræðu. Í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur átt frumkvæði að þessari umræðu hefði ég kosið að við ættum slíka umræðu í þinginu áður en þess háttar ákvörðun er tekin. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í hans afstöðu í málinu.