145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

afgreiðslutími úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

[15:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í svari við fyrirspurn minni sem var birt 10. júní sl., fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. forsætisráðherra um afgreiðslu mála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, kom fram að meðalafgreiðslutími hjá nefndinni er 200 dagar. Heimildarmenn segja mér að afgreiðslutími mála hjá úrskurðarnefnd taki jafnvel 12 mánuði. Þetta er óásættanlegur biðtími eftir upplýsingum. Þeir sem leita þurfa til úrskurðarnefndar eru langoftast fréttamenn sem eru að vinna við að upplýsa almenning um starfsemi og starfshætti stjórnvalda.

Það er augljóst að ef það tekur allt að 12 mánuði að afla upplýsinga við vinnslu frétta er upprunalega fréttin sem er í vinnslu löngu orðin köld og hætt við að nauðsynlegt aðhald sé ekki sem skyldi í samfélaginu.

Í svari við fyrirspurninni kemur einnig fram að unnið sé að því að stytta afgreiðslutímann hjá nefndinni. Ég fæ ekki séð af fjárlagafrumvarpinu að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fái aukið fjármagn. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að úr þessu verði bætt án aukins fjármagns? Finnst ráðherranum ekki með fullri virðingu fyrir menningararfinum að meira liggi á að laga mál er lúta að upplýsingarétti almennings og nauðsynlegu aðhaldi með starfsemi stjórnmála en að styrkja til dæmis endurútgáfu ýmissa fornsagna?