145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

aðstoð við langveik börn.

[15:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir hvatningu þingmannsins. Þetta hefur líka snúið að vinnu sem hefur verið í gangi sem tengst hefur barnaverndarmálum. Þar var ákveðin tímamótaskýrsla um börn með margþættan vanda, að horfa bæri til þess að þau börn væru fötluð en að ekki væri um barnaverndarmál að ræða. Við erum oft með foreldra sem við mundum kannski frekar kalla súperforeldra. Niðurstaðan úr þeirri nefnd sem ég kynnti fyrir ríkisstjórn varð sú að leggja áherslu á að þessi börn eru fötluð, þau eiga rétt á því að fá þjónustu í nærumhverfi sínu og horfa til þess að þau fari inn í stuðningsumhverfi sem snýr að fötluðu fólki en að ekki sé fyrst og fremst horft á þetta sem barnaverndarmál.

Ég kem þessari hvatningu þingmanns á framfæri við nefndina og get tekið undir að ég vona svo sannarlega að ég fái fljótlega góðar tillögur hvað þetta varðar.