145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lífeyrisgreiðslur og lágmarkslaun.

[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér ágætlega þær tölur sem liggja að baki útreikningunum í fjárlagafrumvarpinu. Þar er ekki gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki frá 1. maí á árinu 2015 heldur eru teknar almennar kjarabætur í landinu og látnar taka gildi 1. janúar 2016. Þær fylgja ekki hækkunum lægsta taxta sem samið var um. Það má vera að það sé áform ríkisstjórnarinnar að hækkunin verði 300 þús. kr. árið 2018 eða 2017 en það kemur hvergi fram.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki svolítið kaldranalegt að þegar ríkissjóður hefur rétt úr kútnum sé það ekki forgangsmál að láta bætur öryrkja og ellilífeyrisþega fylgja lágmarksbótum. Á síðasta kjörtímabili, þegar barist var við gjaldþrot ríkissjóðs, voru lægstu bætur aldrei skertar, þær voru reyndar hækkaðar mikið að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur (Forseti hringir.) á árinu 2008 sem fylgdi fólkinu í gegnum hrunið.