145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi.

81. mál
[15:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Íslenskri kvikmyndagerð hefur gengið ótrúlega vel á undanförnum árum og hefur það verið mikið ævintýri. Það gerðist ekki af sjálfu sér, það gerðist vegna þess að hér er samkeppnishæft umhverfi fyrir kvikmyndagerð og njótum við góðs af því með margvíslegum hætti. Eitt af því sem ég tel að við getum gert betur er það sem snýr að tengingu við ferðaþjónustuna. Ef ég man rétt kemur tíundi hver ferðamaður hingað vegna þess að hann veit af landinu gegnum íslenskar kvikmyndir. Við getum þó gert enn betur og ég vonast til þess að þegar þessi skýrsla kemur muni hún varpa ljósi á það og benda okkur á ýmsar leiðir til að nýta þau tækifæri enn frekar.