145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður fari nærri lagi þegar hann talar um heildarkostnað á bilinu 30–40 milljarðar. Það er hins vegar athyglisvert að ríkisstjórnin hefur ekki haft fyrir því að láta reikna það út, eins og fram kom í andsvörum í síðustu viku af hálfu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem vakti nú undrun mína, hvað þessi réttlætislausn mundi kosta. Það er flókið að fá nákvæmar tölur vegna þess að Tryggingastofnun mun þurfa að keyra þetta í gegn og til þess þarf ríkisstjórnin að biðja um að það verði gert.

Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að hér ekki um að ræða útgjöld sem ekki mundu koma til að neinu leyti ella, vegna þess að það er fyrirsjáanlegt miðað við þær hækkanir sem þegar eru byggðar inn í kjarasamninga á næsta og þarnæsta ári að bætur almannatrygginga munu líka hækka eitthvað á þeim árum. Þær munu ekki hækka jafn mikið en þær munu hækka. Þess vegna er mér til efs að kostnaðurinn, mismunurinn, hlaupi á tugum milljarða. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi er að hér er tillaga um sérstaka ráðstöfun vegna sérstakra aðstæðna og vegna þess að gerðir voru sérstakir láglaunasamningar. Rétt eins og árið 2011 er ekki gert ráð fyrir að það sé fjármagnað af hinu almenna tryggingagjaldi heldur komi sérstakt framlag úr ríkissjóði vegna þessa. Við erum nú með afgang á fjárlögum upp á 15 milljarða, hann mundi væntanlega duga fyrir þessu öll þrjú árin, mundi ég halda, miðað við þær forsendur sem hægt er að leggja upp með um almenna launaþróun næstu árin að öðrum kosti. Það er ekki eins og að fjármagnið sé ekki til reiðu og ekki er þörf á því (Forseti hringir.) að hækka tryggingagjald til að standa undir sérstakri ráðstöfun af þessum toga, ekki frekar en 2011 þegar veitt var sérstakt fjármagn úr ríkissjóði til að mæta láglaunakjarasamningum.