145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:07]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og frumvarpinu þegar á heildina er litið og þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að fara yfir það. Ég tel mikilvægt að lífeyrisbætur bæði fyrir aldrað fólk og þá sem kallast öryrkjar, oft fatlað fólk, langveikt fólk eða bæði, séu ekki undir lágmarkslaunum og séu líka í samræmi við neysluviðmið. Við vitum það, rannsóknir sýna okkur það, ekki bara hér á landi heldur líka hér á landi, að fátækt í þessum hópi er mikil. Umræðan verður oft þannig að það sé óhjákvæmilegt, að það sé eitthvert náttúrulögmál að þessi hópur sé einhvern veginn veikur í samfélaginu, en það er alls ekki þannig, það er kerfislægt vandamál, það er vandamál sem við höfum búið til. Þessi hópur er í þeirri stöðu að hafa ekki sömu tækifæri, búa ekki við sömu réttindi og aðrir borgarar og er þess vegna í þessari stöðu. Fátæktin er mikil, eins og ég sagði, og það sem bætist ofan á oft og tíðum er aukinn kostnaður við það að vera með einhvers konar skerðingu. Kerfið er líka flókið þannig að það getur verið mjög kostnaðarsamt að standa í því að finna leiðir og fá í rauninni það sem maður á rétt á í gegnum það.

Það að búa við fátækt kallar oft á heilsubrest þannig að sú fötlun sem er til staðar eða langvarandi veikindi geta aukist með því að þurfa að vera í þessari stöðu eða standa í þeirri stöðugu baráttu sem fylgir því að vera jaðarsettur með þessum hætti. Þessu fylgir líka félagsleg útskúfun og útilokun og kemur í veg fyrir þátttöku í samfélaginu. Það getur eiginlega ekki verið þannig að einhver þingmaður, algerlega óháð flokki, telji að það sé ekki alvarlegt og það sé eitthvert náttúrulögmál, það er ekki þannig.

Mér finnst líka mikilvægt að benda á að þetta er ekki eitthvert einkamál ákveðins hóps. Þessi hópur á fjölskyldur, maka, börn, systkini og foreldra, sem þetta snertir. Í rauninni held ég að ef við mundum skoða þetta þá mundi það koma okkur öllum mjög mikið við persónulega.

Ég fagna ekki síst þessari umræðu vegna umræðunnar sem hefur svolítið verið undanfarið í samfélaginu, umræðu sem hefur byggt á fordómum og byggst á þeim hugmyndum að sá hópur sem nýtur örorkubóta eða ellilífeyris sé einhvers konar blóðsugur á kerfinu, sé jafnvel að svindla á því og reyna að fá eitthvað út úr því sem hann á ekki að fá. Þetta er ekki bara röng heldur mjög hættuleg umræða. Það er sérstaklega hættulegt þegar við sem hér erum og berum mjög mikla ábyrgð og erum mikil fyrirmynd segjum þetta. Við eigum að vita betur þegar við erum með rannsóknir sem sýna okkur annað. Við slíka umræðu finnst mér líka mikilvægt að við greinum um hvaða hópa við erum að tala. Til dæmis þegar verið er að tala um örorkulífeyrisþega þá er oft talað um svindl og svo framvegis, en þegar málið er skoðað þá eru það kannski ekki þeir hópar sem standa sérstaklega mikið í því. Það er mikilvægt að við gerum greinarmun á því hvaða hópa við erum að tala um. Mér finnst líka mikilvægt að við séum ekki að búa til kerfi í kringum einhverja örfáa svindlara. Hvað er það? Með því erum við að flækja allt rosalega mikið, við erum að búa til vesen sem bitnar á mest á okkur hinum, 97% af heiðarlegu fólki, sem viljum bara fá þá aðstoð sem við þurfum á að halda. Það kostar hellings pening að búa til vesen og við erum rosalega góð í því hér á landi, rosalega góð í því að búa til mjög kostnaðarsamt vesen.

Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu máli, sérstaklega eftir að ég dvaldi í Bretlandi sem skiptinemi undanfarna mánuði þar sem mikið hefur borið á þessum málum í pólitískri umræðu. Gróf hatursorðræða hefur stuðlað að því að hatursglæpum gagnvart bótaþegum hefur fjölgað mjög mikið. Það er verið að ráðast á fólk úti á götu, senda því mjög hatursfull og ógeðsleg skilaboð o.s.frv. Þetta stuðlar jafnvel að dauðsföllum. Ég held að við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hvað orð okkar hafa mikil áhrif.

Um leið og ég fagna því að við séum farin að fókusera á að breyta bótakerfinu og horfa til þess að gera starfsgetumat þá þurfum við samhliða því, til þess að það virki, að skoða vinnumarkaðinn. Ég er alls ekki á móti því að við förum af stað með starfsgetumat, en eins og þróunin hefur verið til dæmis í Bretlandi þá er fatlað og langveikt fólk að missa bæturnar sínar og er gert skylt að vinna á sama tíma og vinnumarkaðurinn vill ekki ráða það vegna ósveigjanleika og fordóma og skorts á stuðningi og aðstoð. Síðan starfsgetumatið var tekið í notkun þar hafa ótímabær dauðsföll fatlaðs fólks aukist sem afleiðing af fátækt þar í landi. Fatlað fólk er meira á götunni, það deyr vegna þess að það sveltur og finnst heima hjá sér, dáið af fátækt.

Ég er því verulega hugsi yfir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og annarra sem tilheyra þeim hópi sem við erum að ræða og áhrifum þess að breyta kerfinu. Mér finnst í því samhengi mjög mikilvægt að við hugsum um það að þetta snýst ekki bara um hæfa einstaklinga eða að efla þá og virkja heldur þurfum við líka að breyta samfélagsgerðinni og kerfunum. Það er mjög áhugavert í því samhengi að skoða lög um vinnumarkaðsaðgerðir á Íslandi, þau snúast nánast alfarið um einstaklinginn en ekki vinnumarkaðinn. Allir fókusera á hæfa einstaklinginn og að láta hann gera og geta alls konar en eru eiginlega ekkert að tala um að stuðla að vinnumarkaði þar sem fjölbreyttari störf og starfshlutföll eru í boði, stuðlað sé að viðeigandi aðlögun samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með því að styðja við fyrirtæki og stofnanir svo að þau geti til dæmis bætt aðgengi og fjárfest í hjálpartækjum þar sem þörf er á eða hvetja til þess að fólk hafi sveigjanlega viðveru í vinnunni, geti unnið eitthvað heima hjá sér, geti haft styttri vinnudaga suma daga og lengri aðra o.s.frv. Það er eiginlega ekkert talað um fræðslu fyrir vinnumarkaðinn. Ég veit það bara, miðað við þær rannsóknir sem við höfum og úr mínu starfsumhverfi og bara af persónulegri reynslu, að skilaboðin sem maður fær mjög oft frá vinnumarkaðnum eru: Við viljum ekki ráða þig, þú getur rosalega lítið gert hérna og okkur langar ekkert rosalega mikið til þess að breyta neinu til þess að það sé hægt. Þetta eru að sjálfsögðu ekki allir en þetta er samt viðkvæðið og hefur áhrif á líf okkar. Ég hef áhyggjur af því.

Mér finnst ekki ganga endalaust að manneskjur séu gerðar að blórabögglum fyrir kerfisgalla og lagaramma sem virkar ekki. Það er alveg sama hvað við tölum mikið um að einfalda almannatryggingakerfið og fókusera á getu fólks en ekki galla, sem er mjög mikilvægt, þá getum við ekki horft fram hjá því að við búum í samfélagi sem er að mestu búið til af ófötluðu fólki fyrir ófatlað fólk. Þetta ófatlaða fólk þarf mikla aðstoð núna, það þarf aðstoð og jafnvel skilyrðingar til þess að sjá að fatlað fólk og aðrir sem tilheyra þeim hópi sem við erum að tala um er verðmætur og mikilvægur mannauður á vinnumarkaði sem og annars staðar. Það er ekki á okkar ábyrgð sem föllum inn í þennan hóp að breyta og bæta okkur endalaust fyrir ykkur og fyrir kerfið sem þið hafið búið til af því að við erum alla jafna alveg nógu góð nákvæmlega eins og við erum.

Mér finnst mjög mikilvægt að við hér áttum okkur á því að fólk býr til kerfi, kerfin búa sig ekki til sjálf, og fólkið sem býr til kerfin hefur mestu völdin og það tilheyrir sjaldnast þeim hópum sem við erum að tala um í dag. Þess vegna berum við sem höfum völd fyrst og fremst ábyrgð á því að vinna með jaðarsettu hópunum, heyra hvað þeir hafa að segja og hvernig þeir vilja hafa þetta til þess að við getum breytt þessum kerfum og borið þá ábyrgð sem okkur ber skylda til.