145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og þykir fara vel á því að formaður Samfylkingarinnar fari í upphafi þings fyrir þingmáli sem lýtur að því brýna verkefni að tryggja það að ekki gliðni á milli kjara lægst launuðu Íslendinganna í hópi aldraðra og öryrkja annars vegar og hins vegar þeirra sem eru á vinnumarkaði.

Það hefur verið nefnt hér í umræðunni að það að halda í heiðri því grundvallarsjónarmiði að aldraðir og öryrkjar eigi að njóta sömu kjarabóta og aðrir í samfélaginu muni kosta ríkissjóð fjármuni. Það er rétt. Það er auðvitað þannig um allar kjarabætur í landinu. Niðurstaða gerðardóms í nýlegum úrskurði um kjaramál ákveðinna hópa opinberra starfsmanna leiðir einfaldlega til ákveðins kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Hún hefur verið greidd afturvirkt til 1. maí sl. Fyrir henni koma aukafjárveitingar úr ríkissjóði til stofnananna sem í hlut eiga. Það verður einfaldlega að framfylgja þeirri niðurstöðu og af þeirri niðurstöðu leiðir líka, sem varð í kjarasamningum, að kjör aldraðra og öryrkja þurfa auðvitað að taka sömu hækkunum og annarra hópa. Og það hvernig við tökumst á við kostnaðinn sem af því leiðir er síðan bara sjálfstætt úrlausnarefni enda nóg af skattstofnum, einkum á efnuðustu heimilin í landinu, stórútgerðina og sérverslun, sem unnt er að falla frá ef menn telja sig skorta tekjur til að mæta þessum nauðsynlegu útgjöldum.

Ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að við tökum þetta mál strax föstum tökum í þinginu og fylgjum því eftir af fullum þunga er sú að ef við látum gliðna milli fólksins á lægstu laununum og þeirra sem eru með lægstu lífeyrisbæturnar, hvort sem eru öryrkjar eða aldraðir, þá mun það að líkindum þýða um margra ára bil að aldraðir og öryrkjar búi við lakari kjör en aðrir í landinu. Síðast þegar þetta gerðist, árið 1995 þegar samið var líka í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á vinnumarkaði um umtalsverðar hækkanir á lægstu launum, þá var lífeyririnn ekki látinn fylgja og það tók nærfellt áratug að leiðrétta þann mun sem þá skapaðist. Það var ekki gert fyrr en haldinn var frægur fundur í Þjóðmenningarhúsinu þar sem undirritað var samkomulag þáverandi ríkisstjórnar við Öryrkjabandalag Íslands um það með hvaða hætti munurinn sem myndaðist 1995 yrði leiðréttur þá árið 2003, átta árum síðar. Þess vegna, virðulegur forseti, er ekki hægt að leggja nægilega mikla áherslu á mikilvægi þess að þessi leiðrétting gangi strax til öryrkja og aldraðra því að annars erum við því miður trúlega að horfa upp á baráttu um margra ára skeið þar sem við þurfum að lifa við það að öryrkjar og aldraðir njóti lakari kjara en þeir sem lægst laun hafa á vinnumarkaði.

Það olli mér sérstökum áhyggjum og ég kemst ekki hjá því að nefna það að ég spurði hæstv. velferðarráðherra um það hér fyrir helgi hvað mundi kosta að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja aftur í tímann til 1. maí, eins og gert var með ákveðna hópa opinberra starfsmanna, og sömuleiðis hvað það kostaði að ná 300 þús. kr. lágmarkslaununum á sömu tímapunktum og gert er ráð fyrir í kjarasamningum á almennum markaði. Það voru engin svör. Velferðarráðherrann vissi ekki hvað það kostaði. Það var ekki hægt annað en að draga af því þá ályktun að það hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn Íslands hvað það mundi kosta að láta aldraða og öryrkja njóta sömu kjarabóta og fólk á almennum vinnumarkaði á lægstu launum. Að ríkisstjórnin og velferðarráðherrann fyrir hennar hönd skyldi ekki einu sinni hafa fyrir því að reikna það út hvaða kostnaður væri því samfara heldur bara ákveðið að gera það ekki og vera ekkert að skoða hvað það kostaði, það eru auðvitað engin vinnubrögð og lýsa svo hálfum hug af hálfu ríkisstjórnarinnar sem mest má vera.

Látum kannski vera þó að menn hafi áhyggjur, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, sem lýsti því hér áðan þeim kostnaði sem kynni að vera samfara þessu, en menn reikna hann út. Velferðarráðherrann reiknar út hvað það kostar að aldraðir og öryrkjar fylgi kjaraþróun annarra í landinu. Hún skoðar hvort og hvernig sé hægt að mæta slíkum kostnaði. Hún gefst ekki bara upp áður en verkefnið er yfir höfuð skoðað.

Ég legg á það ríka áherslu að menn hefjist þegar handa og átti sig á því hvað þetta sjálfsagða réttlætismál kostar okkur, þ.e. að aldraðir og öryrkjar njóti einfaldlega sömu kjarabóta og aðrir láglaunahópar í landinu, vegna þess að sú réttlætiskrafa mun ekki þagna fyrr en hún hefur náð fram að ganga. Þeim mun fyrr sem við reiknum út hvað hún kostar, þeim mun fyrr áttum við okkur á því hvernig við fjármögnum hana vegna þess að spurningin er ekki hvort þetta mál nær fram að ganga heldur hvenær og hvernig.