145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta er ég mjög ánægður með að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skuli koma í umræðu um þetta mál þó að það sé í bara annað skiptið og í andsvari. Hann kemur hér og spyr út í það sem ég var að tala um, þ.e. að ég vildi ekki nota um orðið kostnað, alveg eins og ég vil ekki nota orðið bætur.

En hvað á að nefna það? Jú, þetta eru aukin útgjöld ríkissjóðs, að sjálfsögðu. (GÞÞ: Nú?) Það liggur í augum uppi og þarf ekki að vera með neinn orðhengilshátt um það. Á sínum tíma eftir hrun var mjög merkilegt að aðilar vinnumarkaðarins óskuðu eftir því að tryggingagjald yrði hækkað til að greiða meira í Atvinnuleysistryggingasjóð, sem veitti sannarlega ekki af fyrst eftir hrun. Það er því til í dæminu að menn komist að niðurstöðu og að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldið finni leiðir til að gera þær breytingar sem gera þarf og leiðir til að fjármagna þær, þ.e. til að bregðast á við auknum útgjöldum. En eins og ég sagði áðan finnst mér mjög merkilegt að menn skuli ekki ræða þetta stóra mál meira en gert er.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, um leið og ég þakka fyrir að hann skuli taka þátt í þessari umræðu: Hvað átti Sjálfstæðisflokkurinn við með samþykkt sinni rétt fyrir kosningar 2013, að kjaraskerðing sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júní 2009 yrði tafarlaust afturkölluð og að leiðrétta ætti kjaragliðnun krepputímans? Og hvað átti Sjálfstæðisflokkurinn við með kosningabréfi til ellilífeyrisþega sem sent var og undirritað af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem sagði: Við ætlum að afnema tekjutryggingu ellilífeyris?