145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lýðháskólar.

17. mál
[18:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka til máls og blanda mér í umræðuna um þessa tillögu til þingsályktunar um lýðháskóla, sem ég sé á lista flutningsmanna að er flutt af þingflokki Bjartrar framtíðar.

Mér hugnast þessi tillaga óskaplega vel og tel, líkt og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir sagði í framsöguræðu sinni, að lýðháskólar séu öðruvísi valkostur en hefðbundnir bók- eða verknámsskólar. Ég er einfaldlega sammála því að þeir eigi að vera hluti af menntaflórunni á Íslandi. Ég held að tilkoma fleiri slíkra skóla, þá fyrir utan LungA á Seyðisfirði, hafi einfaldlega góð áhrif á íslenskt samfélag. Ég hygg að ýmsir þeirra nemenda sem ekki finna sig í hefðbundnum skólum gætu fundið sig í lýðháskólum og svo mundu auðvitað þeir sem finna sig nú þegar í hefðbundnu skólunum einnig geta fundið sig í þessum skólum. Ég tel að aukin þekking, aukin víðsýni og aukin innsýn í hin fjölbreyttustu mál sé ekki bara einstaklingnum til hagsbóta heldur hreinlega samfélaginu öllu.

Án þess að ætla að hafa um það fleiri orð þá langar mig bara að segja hér og nú að ég sé mjög jákvæði fyrir þessari þingsályktunartillögu. Ég hlakka mjög til að sjá hver afdrif hennar verða, hvers konar umsagnir hún fær og hvers konar viðtökur hún fær í áframhaldandi meðferð þingsins. Eins og ég segi þá tel ég að hér sé góður kostur til að auka fjölbreytnina í hinu íslenska skólakerfi. Með stofnun lýðháskóla, ef þeim verður fundinn staður, held ég að hægt verði að fjölga í þeim hópi sem sækir sér frekari menntun.