145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

virðisaukaskattur.

8. mál
[19:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir. Já, við erum mjög svo sammála, ég og hv. þm. Willum Þór Þórsson, um þetta. Ég þarf nú ekki að líta lengra en á minn eigin heimabæ, Akranes, þar sem knattspyrnuhöll var byggð, eða knattspyrnuhús. Hv. þingmaður talaði um fjölnotagildi slíkra mannvirkja. Þar sér maður eldra fólkið nota göngubraut til að rölta og hreyfa sig, það hefur jákvæð áhrif á heilsu þess.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég styð málið að öllu leyti. Ég vona svo sannarlega að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og þeir hv. þingmenn sem þar eru leiti allra leiða til að þetta afar jákvæða mál, sem er eitt af þingmannamálum Framsóknarflokksins fyrir þennan þingvetur, verði að veruleika því að það hefur afar jákvæða þætti og áhrif í för með sér fyrir alla, bæði unga sem aldna.