145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðlegur dagur lýðræðis.

[13:32]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hv. alþingismenn. Áður en gengið verður til dagskrár vil ég vekja athygli alþingismanna á því að í dag, 15. september, er alþjóðlegur dagur lýðræðis. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2007 að 15. september skyldi vera alþjóðlegur lýðræðisdagur til að minnast lýðræðisyfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, frá september 1997.

Fyrsti alþjóðlegi lýðræðisdagurinn var haldinn hátíðlegur 15. september árið 2008. Frá þeim tíma hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið merki lýðræðis sérstaklega á lofti þennan dag sem lið í eflingu lýðræðis um heim allan. Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar áherslu á mikilvægi þátttöku almennings í stjórnmálum fyrir lýðræðið. Það eru ekki allar þjóðir svo lánsamar að búa við lýðræði og því getum við Íslendingar verið þakklát fyrir á þessum degi að hér standa lýðræðislegir stjórnarhættir föstum rótum. Alþingi er hornsteinn stjórnskipunar okkar og því við hæfi að minnast lýðræðisdagsins á Alþingi.