145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega með trega sem ég vel að vekja máls á því að ponta Alþingis er ekki að fullu aðgengileg. Það er með trega vegna þess að mér finnst óþægilegt að persónugera þetta mál, enda er þetta prinsippmál. Ég hef því valið að hafa ekki hátt um það þar til nú af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að fyrir tæpum tveimur árum var ég fengin til þess að upplýsa ykkur um hvernig ég gæti notað pontuna. Nokkrum mánuðum síðar sá ég frétt um það að pontan væri orðin hjólastólavæn og um leið og það gladdi mig fékk ég smákvíðahnút í magann. Með fréttinni var mynd af tveimur uppisitjandi karlmönnum í hjólastól sem hvorugur er varaþingmaður. Ég var svolítið undrandi að ekki hefði verið kallað eftir mér til að prófa pontuna þar sem fólk vissi af því að ég mundi mögulega starfa hér á ný.

Í öðru lagi vek ég máls á þessu sannfæringar minnar vegna því að ég get ekki gefið fötluðu fólki þau skilaboð að fatlaðir þingmenn séu minna virði en aðrir þingmenn, konur og karlar. Vissulega getum við sum tekið þátt í stjórnmálum og boðið okkur fram til þings en við gætum þurft að láta okkur það nægja að sitja á jaðri þingsalarins og tala úr sæti okkar þar sem við sjáumst minna og rödd okkar heyrist ekki eins vel, að við þurfum ekki að geta komist í pontu, nú, eða í sæti ráðherra eða forseta þingsins því að ekki sé gert ráð fyrir okkur þar.

Ég get ekki lengur sent þau skilaboð. Fatlað fólk sem hefur rutt brautina fyrir mína kynslóð um allan heim á það einfaldlega inni hjá mér að ég sé ekki slík gunga.

Alþingi þarf að láta af því að elska gamlar, sögulegar pontur meira en réttindi borgaranna til stjórnmálaþátttöku. Það þarf að breyta stefnu sinni, ásýnd og trúverðugleika og gera í hröðum skrefum nauðsynlegar breytingar svo alls konar fólk geti stundað hér stjórnmál í öllum embættum, hvort sem það fer um gangandi, sitjandi eða liggjandi. Það þarf að gerast í fullu samráði við ólíka hópa fatlaðs fólks.


Efnisorð er vísa í ræðuna