145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í dag er 15. september, alþjóðlegur dagur lýðræðis. Við það tilefni tel ég mikilvægt að minna okkur á það hvers vegna lýðræðið er mikilvægt og hvað það er. Þótt sjálfsagt allir hér inni, og sennilega yfirþyrmandi meiri hluti þjóðarinnar, séu vissulega lýðræðissinnar og kalli sjálfa sig slíka þá eru viðhorfin til lýðræðis og til misjafnra útfærslna á því misjöfn. Lýðræði er mikilvægt vegna þess að frelsið er mikilvægt, sjálfsákvörðunarréttur er mikilvægur. Lýðræðið er mikilvægt vegna þess að vald sem fyrirbæri er viðbjóður eða ætti í það minnsta að heita svo. Vald yfir öðrum er aldrei sjálfgefið og krefst ávallt viðunandi réttlætingar. Það er þess vegna sem Alþingi hefur vald yfir þjóðinni, vegna þess að hér eru kjörnir einstaklingar. Ef svo væri ekki væri þetta vald óréttmætt og það bæri ekki bara að efast um það heldur að berjast gegn því með virkum hætti. En við búum í heimi þar sem vald er nauðsynlegt, því miður, en við búum líka í heimi sem breytist hratt og gerir það mögulegt að fjarlægja vald víða í samfélaginu, dreifa því, jafnvel niður á einstaklinga undir vissum kringumstæðum og að sumu leyti.

Ég tel, virðulegi forseti, að þegar þau tækifæri gefast til að dreifa valdinu og helst eyða því og skipta því út fyrir sjálfsákvörðunarrétt þá eigum við í það minnsta að reyna.


Efnisorð er vísa í ræðuna