145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Nú á degi lýðræðisins er við hæfi að fara nokkrum orðum um lýðræðið á Íslandi. Lýðræðið þarf að vera meira en að kjósa bara á fjögurra ára fresti, það þarf að vera meira en að kjósa sér fulltrúa til að sitja í þessu herbergi hér. Lýðræðið snýst um þátttöku fólks í ákvörðunum sem það varðar. Það að ganga til kosninga einu sinni á fjögurra ára fresti er bara hluti af því.

Gagnsæi er annar hluti af lýðræðinu sem er nauðsynlegur. Alþingi kemur saman í heyranda hljóði og hefur verið þannig lengi. Hins vegar eru ekki allar ákvarðanir ræddar hér, ekki fara öll skoðanaskipti fram hér í þessum þingsal. Nefndafundir er stór og mikill þáttur í því að búa til þau lög og stefnur sem land okkar byggir á. Á árinu 2015 hafa einungis þrír nefndafundir af fjölmörgum verið haldnir í heyranda hljóði. Á nefndafundum á sér stað upplýsingamiðlun frá hagsmunaaðilum, frá fólki úti í bæ milli þingmanna og milli ráðherra og þingmanna. Þetta eru forsendur fyrir breytingum á lögum eða rökstuðningi fyrir því af hverju lögin eru eins og þau eru, af hverju lögin eru svona en ekki hinsegin. Skortur á aðgengi fólks að þessum upplýsingum þýðir að það hefur úr minna að spila þegar kemur að því að velja sér fulltrúa.

Upplýsingar eru forsenda þess að taka upplýsta ákvörðun. Það að Alþingi kjósi að halda nefndafundi lokaða kemur í veg fyrir að almenningur hér á landi geti tekið upplýstar ákvarðanir um ákveðin málefni og fulltrúa. Það kemur í veg fyrir að fólkið í landinu geti myndað sér upplýsta skoðun á því sem gerist á Alþingi. Lýðræðið er einungis jafn sterkt og þátttaka fólksins. Ég fagna því lýðræði sem við búum við í dag en að sama skapi á ég mér þann draum að fundir fastanefnda Alþingis verði haldnir í heyranda hljóði.


Efnisorð er vísa í ræðuna