145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um að við Íslendingar eigum að bregðast við og ég treysti því að ríkisstjórnin og við þingheimur gerum það á þann hátt sem við kunnum best.

Ég ætlaði að ræða hér flugvöllinn í Reykjavík vegna þess að enn þá einu sinni birtist okkur skýrsla um flugöryggi þar sem togast á sjónarmið. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur gert verulegar athugasemdir við nýútkomna skýrslu sem unnin er af verkfræðistofu á höfuðborgarsvæðinu. Það getur ekki verið að mál flugvallarins í Reykjavík og hvort loka eigi margumræddri öryggisbraut sem sumir kalla geti verið í uppnámi með þeim hætti að fyrir liggja skýrslur sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna gerir athugasemdir við, sem þekkir nú kannski flugmálin betur en sérstök verkfræðistofa úti í bæ, Samgöngustofa eða þeir sem stýra Isavia. Ég held að það sé tímabært að skora á hæstv. innanríkisráðherra að útkljá þetta stóra og mikla mál með einum eða öðrum hætti, mál sem er í djúpri andstöðu yfirvalda í Reykjavíkurborg og landsbyggðarinnar og fjölda fólks á höfuðborgarsvæðinu sem vill flugvöllinn óbreyttan í þeirri mynd sem hann er. Hagsmunir heildarinnar hljóta að þurfa að víkja fyrir hagsmunum einstaklinga, félaga og fyrirtækja en mestu máli skiptir að innanríkisráðherra fái óháðan aðila til að (Forseti hringir.) gera úttekt á flugöryggi Reykjavíkurflugvallar varðandi sjúkraflug verði þessari flugbraut lokað eins og meiri hlutinn í Reykjavíkurborg ætlar sér að gera.


Efnisorð er vísa í ræðuna