145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég var að velta því fyrir mér töluverða stund í morgun hvað ég ætti að ræða hér í dag ef ég kæmi upp undir liðnum Störf þingsins. Það er af nógu að taka. Ég var að velta fyrir mér að vera alveg brjálaður yfir stöðunni í þjóðfélaginu, hella mér yfir ríkisstjórnina og forustumenn hennar sem slá sér á brjóst og segja að efnahagsástandið sé miklu betra en það hafi nokkurn tíma verið áður og hér sé verið að gera allt alveg rosalega fínt. Ég var að hugsa um að æsa mig yfir stöðu öryrkja og eldri borgara og barna, m.a. með ADHD-raskanir og geðrænan vanda. Af hverju er ekki lagður meiri peningur í þetta? Það er af nógu að taka. Ég var líka að velta fyrir mér alveg brjálaður yfir stöðu flóttafólks í heiminum. Af hverju erum við ekki að gera eitthvað meira? Af hverju erum við að hengja okkur í einhvern tittlingaskít og smáatriði í staðinn fyrir að gera eitthvað? Eins og ég segi, það er af nógu að taka þegar maður vill vera alveg brjálaður yfir ástandinu, en ég ákvað að gera það ekki. Ég ákvað að vera jákvæður og ræða það sem ég hef svo oft gert hérna í þinginu áður og það fjallar um góð og árangursrík samskipti.

Stjórnmál snúast ekki síst um traust, samskipti og samráð sem á að miða að því að efla hag og hamingju þjóðarinnar. Því ætla ég að gera það sem ég hef ávallt gert í upphafi þings síðan ég varð þingmaður að skora á og hvetja okkur þingmenn til að fara fram með gott fordæmi og eiga góð og vinsamleg samskipti. Ég ber þá von í brjósti eins og ávallt áður að traust og virðing muni einkenna störf okkar á komandi þingi og að við berum gæfu til að vinna saman við að leysa þann margvíslega vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að takast á við margvíslegan vanda þrátt fyrir að hér sé rísandi land og efnahagur og allt sé á góðri leið. Það er af mörgu að taka. Þetta snýst um forgangsmál í mínum huga, að forgangsraða í þágu þeirra sem á þurfa að halda í samfélaginu, í heilbrigðiskerfinu, hvað varðar börn, málefni fanga og það er hægt að telja endalaust upp. Ég hvet okkur til að eiga góð og árangursrík samskipti því að það er lykilatriði til að við náum langt.