145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Launa- og verðlagsliðurinn hækkar um rétt um 30 milljarða milli ára í fjárlagafrumvarpinu en það er auðvitað fleira inni en þeir hópar sem hv. þingmaður nefnir. Varðandi samspil tekjuskattskerfisins og útsvarsins er ég með mínum ábendingum og innleggi í þá umræðu að vekja athygli á því að vilji menn hækka frekar frítekjumark staðgreiðsluskatta er það í raun og veru ákvörðun, vegna þess hvernig kerfið er samsett, um að ríkið mundi borga hærra hlutfall af útsvari skattgreiðenda til sveitarfélaganna. Við værum þá að taka ákvörðun um að ríkið mundi greiða útsvarið fyrir stærri hóp. Ég verð að segja alveg eins og er að það vekur upp ákveðnar spurningar um það tekjuskiptingarkerfi sem við erum með. Það kann að vera besta niðurstaðan til þess að bæta framfærslu- og ráðstöfunartekjur þessa hóps, en þá er ágætt að menn geri sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að ríkið sér ekki neitt af þessum peningum, það eru sveitarfélögin. Þetta væri í eðli sínu ákvörðun um að taka að sér að greiða hluta útsvarsins fyrir þessa skattgreiðendur.