145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Um leið og ég er hlynntur því að menn lækki tekjuskatta þegar ríkissjóður hefur efni á því og umhverfið er rétt þá hef ég hins vegar sagt það fyrr í umræðunni að ég hef efasemdir um að rétt sé að ráðast í tekjuskattslækkun upp á 8 milljarða í þessu frumvarpi, það voru 5 milljarðar í fyrra, og hæstv. fjármálaráðherra lýsir því yfir að þegar þessu kjörtímabili sleppir ætlar hann að hafa lækkað tekjuskatta um 3,3%. Ástæðan er auðvitað sú, fyrir þessari afstöðu minni, að mér sýnist allt vera að teikna sig til þess að mikill hiti verði í hinum efnahagslegu kolum á næstu árum.

Þá finnst mér það lógískt, ef ég hef þessa skoðun, að ég sé tiltölulega slakur gagnvart því þó að ríkið sé ekki að ráðast í mjög miklar framkvæmdir við þessar aðstæður. Ég tek eftir því að ýmsir félagar mínir í þessum sal átelja ríkisstjórnina fyrir að setja ekki nægilega peninga í til dæmis samgöngumannvirki og vegaframkvæmdir. Ég tel að við þessar aðstæður sé það skynsamlegt af ríkinu að halda heldur aftur af sér við það og bíða frekar með að ráðast í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir þangað til að slaki er í efnahagslífinu.

Hv. þingmaður hefur réttilega bent á, að minnsta kosti miðað við þær mælingar sem koma fram í frumvarpinu sem við ræðum hér, að það dragi allverulega, því sé spáð, úr fjárfestingu atvinnuveganna eftir tvö til þrjú ár. Þá mætti ætla að það væri tíminn til að ríkið mundi gefa í gagnvart ýmiss konar framkvæmdum.

Ég spyr hv. þingmann hvort vera kunni að hún sé mér sammála um þetta. Erum við ekki á þeim punkti núna að við eigum bæði að vera efins um miklar skattalækkanir og efins um að keyra eigi í miklar framkvæmdir af hálfu ríkisins?