145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er að segja er að fyrirtækin í landinu geta ekki endalaust farið með launahækkanir sem þau semja um út í verðlagið. Þau verða að hagræða í sínum rekstri, það er hlutverk þeirra sem stjórna fyrirtækjum að hagræða í rekstri, að auka framleiðni. Það er ekki launafólkinu að kenna að ef það fær hærri laun hleypi menn því út í verðlagið en hækki svo launin hjá sjálfum sér, menn sem stjórna einhverjum fyrirtækjum eru komnir með nokkrar milljónir á mánuði, en síðan ef borga á skólakrökkum sem vinna á kassa hærri laun, þá færi það allt út í verðlagið.

Stjórnendur á Íslandi sem stjórna íslenskum fyrirtækjum eiga að fara IKEA-leiðina, þeir eiga að fara IKEA-leiðina og segja: Nú er komið nóg hjá okkur, við getum lækkað verðlag. Launin í IKEA hækkuðu svo sem eins og annars staðar. Það er það sem ég er að segja, það þarf kerfisbreytingu, það þarf breytingu á hugsunarhætti þeirra sem stjórna fyrirtækjum á Íslandi og þeir þurfa að skilja að til að hafa gott starfsfólk, góða starfsemi, þá þarf að borga góð laun. Þeir sem stjórna ríkinu eiga líka að vita að þeir þurfa borga sínum starfsmönnum góð laun en ekki alltaf að afnema skatta á auðmenn eða útgerðareigendur.