145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:50]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að hrósa hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir það sem mér finnst vel gert í þessu frumvarpi og sem líklegt er til árangurs í samfélaginu. Fyrir það fyrsta þykir mér afskaplega góður bragur á því að fella varanlega úr lögum heimild til að skuldajafna barnabætur á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga því að börnin eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að gjalda fyrir að foreldrar þeirra hafi af einhverjum ástæðum safnað upp opinberum skuldum.

Að sama skapi hugnast mér mjög vel afnám tolla af öðru en landbúnaðarvörum og tilteknum matvælum. Það er nefnilega réttlætismál að verslun á Íslandi geti staðið jafnfætis erlendum samkeppnisaðilum. Auðvitað væri líka eðlilegast að afnám tolla mundi renna beint í vasa neytenda með lækkandi vöruverði, en í ljósi reynslunnar er ég hrædd um að það sé ekki gefið. Þess vegna er mikilvægt að við neytendur og ýmis samtök fylgjumst grannt með verðþróun á þessum vörum og mér þætti líka ákjósanlegt að stjórnvöld mundu fylgja því eftir þó að auðvitað sé ekki hægt að refsa verslunareigendum fyrir að lækka ekki vöruverð. En neytendur eiga rétt á að vita hvaða verslanir hirða ágóðann, láta hann renna beint í eigin vasa og hvaða verslanir láta lækkunina renna til neytendanna sjálfra.

Að því sögðu er ýmislegt í frumvarpinu sem vekur hjá mér spurningar. Þá velti ég sérstaklega fyrir mér heildarmarkmiðinu. Á heildina litið finnst mér alveg þess virði að spyrja okkur um forgangsröðunina sem felst í því að lækka tekjuskatt þegar við sjáum okkur ekki fært að reka hér fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, svo ekki sé talað um að uppfylla grundvallarmannréttindi á borð við rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, á meðan við náum til að mynda ekki að sjá heyrnarskertu fólki fyrir rittúlkun eða heyrnarlausu fólki túlkaþjónustu, bara sem dæmi. Við verðum að spyrja okkur hvort rétti tíminn til skattalækkunar sé akkúrat núna.

Miðað við það sem ég skoða hér get ég ekki betur séð en að heildaráhrifin af öllum skattkerfisbreytingum á árunum 2016–2017 séu metin til tekjulækkunar til ríkissjóðs um tæpa 20 milljarða. En þegar við skoðum hvað það mun raunverulega að skila einstaklingunum sjálfum bregður okkur svolítið. Þeir sem hagnast mest á þessum skattbreytingum eru jú einstaklingar með um 700 þús. kr. á mánuði. Það á að skila þeim um það bil 12 þús. kr. meira í vasann á mánuði.

En hvaða áhrif hefur þetta á þá sem minnst hafa, á þá sem eru með 100–300 þúsund á mánuði? Jú, þetta skilar þeim 500 kr. til 1 þús. kr. á mánuði. Hér kemur svo bersýnilega í ljós að hæstv. ríkisstjórn telur okkur hafa svigrúm til að verða af um 20 milljörðum kr. á næstu tveimur árum í samrekstur þjóðfélagsins. Eins og það birtist mér er það í þágu þess að þeir sem hafa hæstu launin fái aðeins meira í vasann á mánuði, það sem nemur um það bil einum tanki af bensíni á stóran bíl, en það nemur sem tveimur til þremur strætómiðum eða tveimur kaffibollum á mánuði fyrir þá sem eru í mestri neyð, fólk með mjög lágar tekjur. Í stað gætum við látið um 20 milljarða renna til samneyslu og stórbætt velferðarkerfið. Við gætum bætt heilbrigðiskerfið, við gætum náð að tryggja grundvallarmannréttindi, eins og til að mynda að fatlað fólk fái að baða sig daglega eins og við hin, nú, eða bara hlúa að menntakerfi fyrir alla þar sem hver og einn einstaklingur fær að njóta sín óháð því hvernig hann nemur upplýsingar.

Það eru nefnilega til peningar og greinilega svigrúm. Þetta snýst alltaf um forgangsröðun. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði ekkert á móti því að borga minni skatta, fá meira í vasann, en ekki þegar við eigum ekki næga peninga til að tryggja grundvallarmannréttindi og heilbrigðisþjónustu þar sem við eigum tól, tæki, nýjustu lyfin, spítala sem uppfyllir heilbrigðiskröfur og ekki síst langskólamenntað starfsfólk sem kýs að starfa hérlendis í stað þess að vera landflótta. Er hæstv. fjármálaráðherra til að mynda ekkert kvíðinn fyrir því að í næsta mánuði lítur út fyrir að við missum stóran hóp starfsfólks úr heilbrigðisstéttinni þegar uppsagnir taka gildi, þó að einhverjir hafi dregið þær til baka sem betur fer? Við höfum ekki efni á að greiða þeim samkeppnishæf laun. Höfum við virkilega ekkert svigrúm þar miðað við það sem blasir við hér? Er mikilvægara að þeir sem eru með 700 þús. kr. á mánuði nái að bæta við sig þessum 12 þús. kr. en að þeir sem minnst hafa bæti við sig um 500 til 1.000 kr. á mánuði? Það er alla vega vel þess virði að velta fyrir okkur hvort við séum tilbúin núna í þessa aðgerð, hvort fjármunum sé ekki betur varið í þá þætti sem ég nefndi hér. Eins þykir mér mikið áhyggjuefni að sjá fyrirhugaðar breytingar á barnabótum, þ.e. að þær eigi nú að dreifast á fleiri fjölskyldur en um leið fækka fjölskyldum sem njóta hámarksbóta, sem eru þá væntanlega þeir sem þurfa mest á því að halda. Mig langar að velta því upp hér hvaða markmiði það þjónar nákvæmlega. Ég sá það alltaf fyrir mér að bætur væru einmitt hugsaðar þannig að þær bættu hag þeirra sem virkilega þyrftu á þeim að halda, ekki sjálfkrafa bætur fyrir það eitt að eignast börn, jafnvel þótt maður sé með há laun.

Svo að lokum þykir mér auðvitað fráleitt, eins og svo mörgum öðrum, held ég, að sjá hækkun á framlagi til þjóðkirkjunnar og finnst það engan veginn í takti við annað sem er að gerast í þjóðfélaginu. Eins og ég skil það er verið að hækka það framlag um hundruð milljóna þótt verðlagsbreytingar útskýri stóran hluta, en það er fyrir utan hækkun á sóknargjöldum sem hækka hátt í 10% á mann. Ég geri mér grein fyrir því að þetta tengist uppgjöri vegna lóða en þó blasir það furðulega við. Það er furðuleg forgangsröðun þegar við erum ekki einu sinni í stakk búin til að hjálpa strax meðbræðrum okkar og -systrum í Sýrlandi. Þá er kannski mikilvægara að styðja við manneskjulega hegðun en styrkingu á guðlegum húsum, lóðum og starfsemi innan þessara húsa. Við hljótum að vilja leggja áherslu á að lifa kristilegu gildin okkar í stað þess að byggja þeim flottari umgjörð í boði ríkisins.

Mér finnst margt núna minna óþægilega mikið á aðdraganda hrunsins. Mikið er lagt upp úr aukinni verslun og eru miklar vísbendingar um þenslu, en á móti er lítið um aðhaldsaðgerðir í frumvarpinu, alla vega eins og ég skil það. Það er ekki síður áhyggjuefni við þennan lestur og ýmsar vísbendingar eru um það í samfélaginu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að aðhald ríkisins byggist ekki bara á því að halda tekjum ákveðins hóps ríkisstarfsmanna í algjöru lágmarki, heldur einmitt að sýna aðhald með því að hvetja ekki til aukinnar neyslu með skattalækkunum þegar við virðumst vera að rétta úr kútnum. Það má ekki gleyma því að fjölmargir þjóðfélagshópar sitja enn í súpunni og hafa engan veginn haft forsendur til að rétta úr kútnum.

Að lokum langar mig aðeins að spyrja út í tryggingagjaldið og ástæðuna fyrir því að lækka það ekki enn meira. Tryggingagjaldið er falinn skattur sem ekki kemur fram á launaseðlinum, og það er kannski þess vegna sem það er ekki eins pólitískt vinsælt að lækka það ekki mikið. Það er skattur sem væri skynsamlegt að lækka, því að eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á áðan er það atvinnuskapandi að lækka gjaldið, sérstaklega fyrir það hugvit sem er núna í blóma. Lækkun tryggingagjaldsins mundi virkilega nýtast litlum fyrirtækjarekendum. Mig langar því að heyra sjónarmið um af hverju ekki var farið í að lækka það gjald meira í stað þess að lækka tekjuskatta eins og gert er hér.