145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil nýta þann tíma sem ég hef hér í 1. umr. um frumvarpið til að ræða um tekjuskattsbreytingarnar og tengslin við kjör aldraðra og öryrkja í framhaldi af því. Ef ég hef tíma vil ég líka ræða aðeins rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Ég heyri að mikill samhljómur er þegar talað er um breytingar á tekjuskattskerfinu hjá þeim fulltrúum sem hafa talað fyrr í umræðunni, þ.e. hv. þingmenn sem eru fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Ég er á sömu nótum.

Ég gagnrýni þessar skattkerfisbreytingar vegna þess að verið er að draga úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins með þeim. Þær koma auðvitað ekki á óvart því að búið er að stíga ákveðið skref í þá átt og núna er verið að stíga skrefið til fulls og fækka þrepunum niður í tvö þrep og minnka bil á milli þeirra. Ríkisfjármálaáætlun var lögð fram 1. apríl síðastliðinn og þá er talað um breytingarnar í svipuðum dúr, þær boðaðar og síðan eru þær útfærðar í þessu frumvarpi.

Í ágætri töflu á bls. 12, í skýringum með frumvarpinu, er sýnt hvernig þetta kemur út fyrir einstaka tekjuhópa. Þeir sem eru með atvinnutekjur upp á 300.000. kr. á mánuði fá rétt rúmar 1.000 kr. út úr breytingunni, en þeir sem eru með 700.000 kr. fá rúmlega 11.000 kr. út breytingunni. Og einstaklingurinn með milljón á mánuði fær rúmar 3.000 kr.

Ég vil spyrja, eins og aðrir hér í dag: Hvers vegna erum við að rétta hátekjufólki 3.000 kr. á mánuði þegar við getum ekki rekið velferðarþjónustuna með nægilega góðum hætti? Hægri stjórnin ætlar sér, svo að dæmi sé tekið, að halda örorku- og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum. Hvað liggur á að fara í þessar breytingar annað en að haga hlutunum þannig að bæta kjör þeirra sem eru með millitekjur og hærri tekjur og það sé pólitískt mikilvægt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að það sé gert á meðan þeir sem eru með lægri tekjurnar eru skildir eftir?

Ef við skoðum aðeins þá fullyrðingu sem er hér á bls. 12 á undan töflunni sem ég var að vitna í áðan þá stendur, með leyfi forseta:

„Þar kemur glöggt fram að þeir launþegar sem eru með atvinnutekjur kringum meðaltalið bera hlutfallslega mest úr býtum verði frumvarpið óbreytt að lögum.“

Það er rétt að meðaltal mánaðartekna fullvinnandi manna er um 620.000 kr. Þessar breytingar gefa þeim mest í vasann sem eru með 700.000 kr. Miðgildi heildarlauna fullvinnandi manna á almennum vinnumarkaði er hins vegar um 500.000 kr., það eru launin sem eru í miðjunni, þannig að það eru jafnmargir fyrir neðan og fyrir ofan. Helmingur þeirra fullvinnandi manna fær tæpar 6.000 kr. út úr þessum skattkerfisbreytingum eða minna og minnst þeir sem minnst hafa á milli handanna.

En ef við tækjum alla og líka þá sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga þá er miðgildið rétt um tæpar 400.000 kr. á mánuði og þeir sem eru með um 400.000 kr. á mánuði fá 3.000 kr., eins og þeir sem eru með 850.000 kr. eða meira. Það er auðvitað eðlilegt að spyrja hvers vegna þetta skref er stigið.

Virðulegi forseti. Mig langar til að vitna í grein sem birtist í Stundinni á dögunum, sem Jóhann Páll Jóhannsson skrifaði. Þar er einmitt bent á að það svigrúm sem myndast hafði í ríkisfjármálunum þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við hafi að mestu leyti verið nýtt til að létta skattbyrði og skuldum af hinum vel megandi í landinu. Það er grunnstefið í skattalegum aðgerðum að létta skattbyrði og skuldum af hinum efnameiri í landinu. Breytingarnar sem hafa verið gerðar, líkt og breytingarnar sem verið er að boða hér, gefa mestan ábata fyrir millitekju- og hátekjufólk. Þetta á bæði við um tekjuskattsbreytingarnar og eins breytingar á neyslusköttum sem gerðar hafa verið. Lágtekjufólk nýtur síðan síður góðs af þessu.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í kafla í greininni þar sem vitnað er í Jón Steinsson, lektor í hagfræði í Colombia-háskólanum í Bandaríkjunum, þar sem hann fjallar um íslenska tekjuskattskerfið í pistli árið 2010. Þar segir hann:

„Skattkerfið sem við Íslendingar höfum búið við undanfarin ár hefur verið það hægrisinnaðasta af skattkerfum allra efnaðra ríkja innan OECD.“

Hið flata hægrisinnaða skattkerfi var eflaust ein helsta ástæða þess að bilið milli ríkra og fátækra breikkaði meira á Íslandi en annars staðar í Evrópu á árunum fyrir hrun.

Samkvæmt rannsókn Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors og Arnalds Sölva Kristjánssonar hagfræðings lækkaði skattbyrði hátekjuhópa umtalsvert fyrir hrun á meðan skattbyrði lágtekjuhópa jókst. Þannig fékk tekjuhæsta 1% á Íslandi mýkri meðferð hjá skattlagningarvaldinu en tekjuhæsta 1% í Bandaríkjunum. Árið 2007 þurfti þessi forréttindahópur vestan hafs að greiða að jafnaði rúm 30% tekna sinna í skatt en sami hópur á Íslandi þurfti aðeins að láta 13% af hendi rakna.

Á Íslandi ríkti allt annað viðhorf til skattlagningar en í nágrannalöndunum, svo sem í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, þar sem áratugum saman hefur ríkt víðtæk sátt um viðskiptafrelsi og þróttmikinn einkageira, háa skatta og mikla samneyslu. Vantrúin á norræna fyrirkomulaginu kristallaðist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands sem kynnt var á viðskiptaþingi árið 2006, þar sem segir: Viðskiptaráð leggur til að Íslandi hætti að bera sig saman við Norðurlöndin, enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.

Breytingarnar sem boðaðar eru með því frumvarpi sem við ræðum hér eru í sama anda. Á síðasta kjörtímabili var tekjuskattskerfinu breytt í þrepaskipt skattkerfi, bæði til þess að afla tekna en einnig til þess að jafna stöðu manna í samfélaginu. Nú er verið að fara til baka aftur á sama stað og við vorum á fyrir hrun.

Það eru ýmis teikn á lofti. Það er ekki bara breytingin á tekjuskattinum heldur er það líka raforkuskatturinn sem núna er tekinn af, sem annars var eina hlutdeild almennings í arðinum af orkuauðlindinni, eins og bent er á í greininni sem ég talaði um áðan. Það að taka þennan skatt af gagnast helst erlendum auðhringjum. Það er í þá veru sem sú breyting er gerð.

Við þekkjum auðlegðarskattinn. Við þekkjum breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu þar sem matur hækkaði en mótvægisaðgerðir voru alls ekki nægilegar og þeim sem var lofað, þær voru meira að segja ekki allar komnar í gagnið. Þar var grænmeti til dæmis hækkað en sælgæti lækkað, sykurskatturinn tekinn af en önnur matvæli hækkuð.

Þær breytingar allar saman sem þessi ríkisstjórn stendur að eru í þágu þeirra ríku og það er svolítið sérstakt þegar hagfræðingar OECD hafa allir bent á að samfélög þar sem jöfnuður ríki séu þau samfélög sem séu best og þjóni flestum vel. Piketty hefur skrifað metsölubók um þetta atriði en hægri stjórnin á Íslandi er að fara í allt aðra átt. Hún gefur ríkum afslátt en heldur öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarksviðmiði. Þetta eru hin pólitísku skilaboð og þau eru kristaltær og hægri stjórnin, þeir sem fyrir henni fara, skammast sín alls ekkert fyrir það, þeir telja þetta vera gott. Ég leyfi mér, herra forseti, að gagnrýna þá stefnu harðlega.

Hér er talað um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og að hann eigi að vera 149 millj. kr. á árinu 2016; 149 millj. kr., virðulegi forseti, þegar við stöndum frammi fyrir þeirri stöðu sem sú grein er í. Það þarf ekki að minna á hversu mikið ferðamönnum hefur fjölgað hér og núna er ferðaþjónustan 29% af útflutningsgreinunum en sjávarútvegurinn 22% og áliðnaðurinn 21%. Ferðaþjónustan hefur því vaxið óskaplega mikið en enginn virðist vera að halda utan um stefnuna.

Stjórnvöldum virðist ekki vera mikið í mun að þessi stóra atvinnugrein vaxi í sama umhverfi og aðrar atvinnugreinar á landinu, heldur er hún látin vaxa eins og um sprotafyrirtæki sé að ræða. Greinin tekur 29% af útflutningi þjóðarinnar og það er grafalvarlegt mál, einkum þar sem miklar fjárfestingar eru í greininni þó að enginn viti almennilega hverjar þær eru. Þegar fjárfestingar eru metnar er horft á fjárfestingar í sjávarútvegi og stóriðju en það vantar inn á fjárfestingar í ferðaþjónustu.

Greinin vex, eins og við þekkjum, fjárfestingar eru miklar, rekstrarumhverfið óeðlilegt, leyfi ég mér að segja, miðað við aðrar greinar og núna búum við við það ástand að gengið er að styrkjast. Hver er að meta það hvaða áhrif sterkara gengi, sterkari króna, hefur á fjölgun ferðamanna? Mun þeim fækka? Mun samsetningin breytast? Hvaða áhrif hefur það á dreifingu út um landið o.s.frv.?

Annað vandamál í tengslum við þessa nýju grein, þar sem vissulega er margt gott að gerast, er að störfin skila ekki miklum virðisauka. Það verður til þess að með þeim nýju störfum sem ferðaþjónustan skapar er ekki úr þeim vanda bætt sem við búum við, sem er skortur á framleiðni. Við flytjum inn vinnuafl til að sinna þeim láglaunastörfum sem greinin skapar á meðan atvinnuleysi háskólamanna minnkar lítið.

Herra forseti. Ég hefði haldið að við þessar aðstæður ætti að vera sérfræðingateymi í vinnu frá morgni til kvölds við að setja fram viðvaranir og spár og leiðbeiningar og sjá til þess að greinin vaxi, þannig að hún skili almenningi góðum arði og það verði ekki þannig að hún brotlendi með kostnaði sem vitaskuld skellur aðeins á almenningi í landinu.