145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að það er erfitt að henda reiður á stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum. Hingað hafa komið þingmenn Samfylkingarinnar og sagt sig hafa efasemdir um að það sé yfir höfuð tilefni til þess að lækka skatta. Nú koma aðrir og segja að það þurfi að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Á sínum tíma kom Samfylkingin fram með þá hugmynd að við ættum að færa tekjumörkin á milli lægsta þrepsins og miðþrepsins upp og draga þannig úr áhrifum miðþrepsins.

Hvað erum við að gera hér? Við erum að lækka skatta í neðsta þrepinu niður í 22,5% og svo erum við að afmá milliþrepið. Þegar þessi ríkisstjórn tók við þá tók við milliþrep upp á 25,8% þegar laun voru 250 þús. kr. Frá og með þessum breytingum munu öll laun undir 700 þús. kr. fara niður í 22,5%. Hv. þingmaður segir að þetta skili of miklu til þeirra sem eru yfir meðallaunum, en staðreyndin er sú að þetta skilar öllum sem hafa hingað til greitt skatt í neðsta þrepinu ávinningi og hlutfallslega sama ávinningi. Jú, það koma flestar krónur til þeirra sem eru efst uppi en við erum eftir sem áður með félagslegt skattkerfi sem tryggir ákveðinn jöfnuð. Það er félagslegt tillit byggt inn í tekjuskattskerfið með persónuafslættinum og sá sem er með 700 þús. kr. borgar eins og hann gerir í dag hærra hlutfall af launum sínum í skatta en sá sem er með lægri laun. Það er bara þannig.

Nú finnst mér fara að verða tímabært að Samfylkingin og aðrir sem gagnrýna þessar tillögur geri grein fyrir því hvort þeir vilja yfir höfuð létta á skattbyrði meðaltekjufólksins í landinu og þeirra sem eru þar fyrir neðan, eða á að gera eitthvað annað frekar, eins og ég hef oft heyrt, tillögur um að fara í bótakerfið og annað þess háttar? Er ekki bara málið að Samfylkingin er alfarið (Forseti hringir.) á móti skattalækkunum fyrir millitekjurnar og þá sem eru þar undir?